Afrakstur vinnusmiðju í Klifi

Eins og sagði í inngangi þessarar vefsíðu efndi Snæfellsbær, í samvinnu við fleiri aðila, til vinnusmiðju um sérstöðu og tækifæri sem tengjast tilvist Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Vinnusmiðjan var haldin í Félagsheimilinu Klifi, Ólafsvík, 30. mars 2011. Um var að ræða opinn kynningar- og vinnufund og var öllum Snæfellingum og öðrum áhugasömum boðið til fundarins. 

Fundurinn var tvískiptur. 
  • Annars vegar fór fram kynning á þjóðgörðum og samfélagslegum áhrifum þeirra og voru kynnt erlend dæmi um þjóðgarða þar sem vel hefur tekist til með samstarf þjóðgarðs og nærsamfélags. Jafnframt var kynnt hvernig unnið er með sérkenni og staðaranda við að skapa svæðum ný tækifæri og aukin verðmæti. 
  • Hins vegar fór fram vinna fundarmanna og laut hún einkum að eftirfarandi:

Skilgreining staðaranda og sérkenni svæðisins 
Reynt var að fanga sérkenni og staðaranda Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og um leið nærliggjandi svæðis. 
Skilgreindir voru staðir sem þátttakendur töldu sérstaka, af ólíkum ástæðum, og dregin upp mynd af áhugaverðum leiðum um svæðið. Að auki var sérstaðan dregin fram á annan hátt með því að þátttakendur veltu fyrir sér hvers konar hátíðir og viðburði mætti halda á svæðinu, sem tengdust sérkennum og sögu þess. Slík upptalning felur samhliða í sér ónýtt tækifæri. 

Tækifærin sem staðarandinn felur í sér og þjóðgarður á svæðinu býður
Auk þessa var á fundinum leitast við að skilgreina tækfærin sem liggja í staðaranda svæðisins og sérstöðu. 
Þau tækifæri eru ekki einungis á sviði ferðaþjónustu heldur má einnig nýta sérstöðuna á öðrum sviðum. 
Ennfremur var leitað eftir svörum við því hvað helst vantaði eða þyrfti að koma til svo hægt væri að nýta tækifærin betur.


Á næstu undirsíðum er settur fram sá efniviður sem varð afrakstur fundarins.