Þjóðgarðar

Auðlegð þjóðgarða
Þjóðgarðar fela í sér auðlegð fyrir viðkomandi svæði. Það er ekki einungis vegna þess sérstaka lífríkis, landslags eða menningar sem þjóðgarður er stofnaður um, heldur líka vegna þess að þjóðgarður getur í raun verið vörumerki með mikið aðdráttarafl. 
Í þjóðgarða sækir fólk til að upplifa eitthvað alveg einstakt - það vill dvelja á slíku svæði, upplifa það sem svæðið býður og kynnast því sem það stendur fyrir. 

„Svæðið" er ekki eingöngu þjóðgarðurinn sjálfur, heldur ná þessi áhrif út fyrir formlega lögsögu og mörk þjóðgarðsins. Nærsvæðið nýtur því góðs af nálægðinni við þjóðgarðinn.

Tilgangur þjóðgarða og ávinningur af þeim
Tilgangur með stofnun þjóðgarðs er í grunninn náttúru- og menningarvernd; að vernda landsvæði sem er sérstætt t.d. vegna landslags, lífríkis eða menningarsögu, á lands- eða heimsvísu. Sérstaðan veldur því að ástæða þykir til að varðveita þetta einstaka svæði þannig að hægt verði að njóta gæða þess um ókomna tíð. Gjarnan er vísað til ábyrgðar stjórnvalda á því að tryggja þessi gæði fyrir borgarana, fædda og ófædda. 

Markmið með stofnun þjóðgarða var í upphafi falið í að varðveita ósnortna náttúru og var m.a. talið andsvar við myndun þéttbýlis, t.d. borga, sem gerði að verkum að sambýli mannsins við náttúruna var ekki lengur eins náið og verið hafði. 

Þjóðgarðar skapa borgurunum því mikilvægt tækifæri til að njóta útivistar og sækja sér þannig líkamlega og andlega næringu í nálægðinni við náttúruna og upplifun af henni. 

Jafnræðissjónarmið bjuggu sömuleiðis að baki hugmyndum um stofnun þjóðgarða, þ.e. að tryggja þyrfti borgurunum jafnt aðgengi að verðmætustu svæðum þjóðarinnar. 

Rannsóknir og fræðsla hafa löngum verið veigamikil markmið með stofnun þjóðgarða. Sérstaða náttúru, lífríkis, landslags eða menningar, getur gefið tilefni til rannsókna sem auka skilning okkar á náttúrulegum ferlum, þróun vistkerfa og menningar. Þjóðgarðar hafa sums staðar þróast sem virkar rannsóknarstofur" og tilvist þeirra, ásamt stefnumótun þjóðgarðs og staðbundinna stjórnvalda, hefur ýtt undir vísindastörf og rannsóknir á svæðum. 

Nokkuð er mismunandi eftir löndum og heimshlutum hvaða áherslur hafa verið mest áberandi við stofnun þjóðgarða. Þjóðgarðar hafa líka þróast með nokkuð mismunandi hætti í Evrópu og Norður-Ameríku. Í Evrópu er þéttbýlla og áhrifa mannsins gætir víðar en t.d. í Ameríku þar sem víðáttumikil svæði voru enn ósnert, þegar hugmyndir um þjóðgarða fóru að festa rætur. Evrópskir þjóðgarðar ná því gjarnan yfir minna svæði og innan þeirra getur verið töluverð búseta og jafnvel þéttbýli eins og t.d. í breskum þjóðgörðum (sjá t.d. Cairngorms, Skotlandi). 
Sums staðar í Evrópu hefur þó myndast hefð fyrir því að skilgreina þjóðgarða sem svæði án byggðar og búsetu, eins og t.d. á Spáni. Þar ná þjóðgarðar einungis yfir svæði án búsetu manna. 

Enn eitt markmið með stofnun þjóðgarða skal nefnt - og það sem hér verður hvað mest horft til. Það er stofnun og starfsemi þjóðgarða til að styðja við þróun og eflingu byggðar á viðkomandi svæði. Hér verður sérstaklega fjallað um þetta markmið og þróun hugmyndafræðinnar sem að baki býr.Þjóðgarður - ekki samræmt hugtak
Það getur verið nokkuð mismunandi eftir löndum og eðli þjóðgarða hvað felst í hugtakinu þjóðgarður. Tilhögun verndar og umgengni er því ekki skilgreind á sama veg alls staðar, eins og fram hefur komið, þó vissulega eigi þjóðgarðar ýmis meginatriði sameiginleg.

Alþjóða náttúruverndarsamtökin, IUCN, samþykktu árið 1994 skilgreiningu á verndarsvæðum og hefur sú skilgreining hlotið alþjóðlega viðurkenningu. Samkvæmt henni er verndarsvæði:

„Land eða hafsvæði sérstaklega ætlað til að vernda og viðhalda 
fjölbreytileika lífríkis og náttúruauðlinda 
ásamt menningu sem því tengist 
og er stýrt með löggjöf eða á annan haldgóðan máta.“

Einnig var samþykkt nánari flokkun verndarsvæða og þeim skipt í sex flokka eftir hlutverki þeirra og verndarmarkmiðum. 
Sem dæmi um markmið verndarsvæða má nefna vísindarannsóknir, auðlindanotkun, verndun óbyggða, verndun lífvera og líffræðilegrar fjölbreytni, ferðamennsku, útivist og sjálfbæra notkun vistkerfis. 
Þessi flokkun verndarsvæða tekur mið af þeirri þróun sem orðið hefur í átt að aukinni fjölbreytni í landnotkun á verndarsvæðum.  

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull tilheyrir verndarflokki II skv. skilgreiningu IUCN, en það eru svæði sem ástæða þykir til að vernda vegna:
  • sérstæðs landslags og náttúrufars
  • vistfræðilegrar heildar 
  • sögulegrar helgi sem hvílir á svæðinu 
  • sóknarfæra á sviði andlegra og vísindalegra málefna, fræðslu og útivistar sem samrýmast umhverfi og menningu