Þjóðgarðar‎ > ‎

Íslenskir þjóðgarðar

Íslendingar eiga þrjá þjóðgarða (2011). 

Elstur er þjóðgarðurinn á Þingvöllum, stofnaður árið 1930, en hann hefur jafnframt verið tekinn á heimsminjaskrá UNESCO. 

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001 og er eini þjóðgarðurinn sem liggur að sjó, umlukinn strönd að stórum hluta. 

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður árið 2008 og er jafnframt stærstur þjóðgarðanna, reyndar talinn stærsti þjóðgarður í Evrópu. Hann þekur um 10-11% af flatarmáli Íslands. 


Stjórnun þjóðgarðanna þriggja er með ólíkum hætti, eins og nánar sést af umfjöllun um hvern þeirra. Gera má því skóna að ólíkt fyrirkomulag stjórnunar hafi haft einhver áhrif á starfsemi þeirra, uppbyggingu og þróun. 

Ólík ákvæði um stjórnun og skipulag þjóðgarðanna þriggja má augljóslega rekja til breyttrar hugmyndafræði, strauma og stefna um nátttúruvernd og samfélag, eins og rakið hefur verið hér fyrr. Þess má einkum sjá stað í breytingum sem verða með stofnun yngsta þjóðgarðsins, Vatnajökulsþjóðgarðs.  

 

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum 

er fyrsti íslenski þjóðgarðurinn, stofnaður með lögum árið 1930. 

Í lögunum segir að Þingvellir við Öxará og grenndin þar skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga sem þjóðgarður, ævinleg eign íslensku þjóðarinnar sem megi aldrei selja eða veðsetja.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er sérstök náttúruperla og sögustaður. Hann var tekinn á heimsminjaskrá UNESCO árið 2004 vegna sérstæðs menningarlandslags, með einstakt gildi fyrir alla heimsbyggðina. 


Þingvellir eru einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins og sækja hundruðir þúsunda gesta hann heim árlega. 


Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er undir vernd Alþingis eins og segir í lögunum og með stjórn hans fer Þingvallanefnd, kjörin af Alþingi, en forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn. 


Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

er á utanverðu Snæfellsnesi. Hann er um 170 ferkílómetrar að stærð og er eini þjóðgarður landsins sem nær að sjó.

Þjóðarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður 28. júní 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Jafnframt er markmiðið að auðvelda fólki að ferðast um svæðið og kynnast því. 

Þjóðgarðurinn var stofnaður á grunni ákvæða náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Þar segir í 51. gr. að umhverfisráðherra geti, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag eða lífríki eða á því hvíli söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
Í 2. mgr. 51. gr. segir að landsvæði þjóðgarða skuli vera í ríkiseign nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli ráðherra og landeigenda.
 
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull heyrir undir deild náttúruverndar hjá Umhverfisstofnun, en stofnunin heyrir undir umhverfisráðuneytið.
Þjóðgarðsvörður fer með daglega stjórn þjóðgarðsins og vinnur að áætlanagerð og stefnumörkun í ólíkum málaflokkum.
Ráðgjafarnefnd starfar skv. heimild í náttúruverndarlögum og fjallar hún um rekstur og skipulag þjóðgarðsins. Umhverfisráðherra skipar nefndina með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórnar, þ.e. bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. 
Um starfsemi þjóðgarðsins og landnotkun er fjallað í verndaráætlun sem staðfest er af ráðherra.

Vatnajökulsþjóðgarður

er nýjasti þjóðgarður Íslendinga. Hann var stofnaður árið 2008 og um hann gilda sérstök lög, lög um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 60/2007 og reglugerð um Vatnajökulsþjóðgarð nr. 608/2008, með síðari breytingu. Að öðru leyti en kveðið er á um í þessum reglum gilda ákvæði náttúruverndarlaga um Vatnajökulsþjóðgarð. 


Þjóðgarðurinn í Skaftafelli, sem upphaflega var stofnaður 1967, og Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, sem stofnaður var 1973, runnu inn í Vatnajökulsþjóðgarð og urðu hluti hans við stofnun hans í júní 2008. 


Í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð segir að landsvæði þjóðgarðsins geti verið í eigu íslenska ríkisins eða annarra aðila, enda liggi fyrir samþykki eigenda lands um að það verði hluti þjóðgarðsins, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. 


Skilgreint markmið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. 


Vegna stærðar og umfangs Vatnajökulsþjóðgarðs er honum skipt upp í fjögur rekstrarsvæði sem rekin skulu sem sjálfstæðar rekstrareiningar á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Sérstök svæðisráð fara með yfirstjórn hvers svæðis. 

Yfir svæðisráðunum og með yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs fer sjö manna stjórn skipuð af umhverfisráðherra, að hluta skv. tilnefningum annarra aðila. Formenn svæðisráðanna fjögurra eiga sæti í stjórninni. 


Með setningu sérlaga um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var að mörgu leyti brotið blað í þjóðgarðamálum Íslendinga. 

Í lögunum má finna nýjar áherslur um ýmis atriði, frábrugðin löggjöf og framkvæmd við stofnun eldri þjóðgarða á Íslandi.


Áherslan á að þjóðgarðurinn eigi að verða til eflingar byggðar á svæðinu er t.d. áberandi í aðdraganda og við setningu laga um Vatnajökulsþjóðgarð. Heimamenn lögðu ríka áherslu á þetta og í greinargerð með frumvarpi til laganna um Vatnajökulsþjóðgarð segir að stofnun þjóðgarðsins sé til þess fallin að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni hans. Þetta sjónarmið kemur líka fram í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar um Vatnajökulsþjóðgarð.  

Annað gott dæmi um breyttar áherslur, í anda þess sem áður er lýst um þróunina erlendis, er áhersla laganna á að heimamenn komi að stjórnun og starfsemi í Vatnajökulsþjóðgarði.  
Á vef Vatnajökulsþjóðgarðs segir svo:    
Sveitarfélög á starfssvæði þjóðgarðsins lögðu frá upphafi mikla áherslu á beina aðkomu íbúa að stjórn og rekstri þjóðgarðsins. Samkvæmt náttúruverndarlögum nr. 44/1999, hefur Umhverfisstofnun umsjón með náttúruverndarsvæðum, þar með töldum þjóðgörðum, nema lög kveði á um annað. Aðkoma sveitarstjórna er þar óbein, einkum með störfum í ráðgjafarnefndum sem ráðherra er heimilt að skipa, sbr. 3. mgr. 51. gr. náttúruverndarlaga. Tillögur undirbúningsnefnda fólu í sér annað stjórnfyrirkomulag í Vatnajökulsþjóðgarði en í þeim þjóðgörðum sem þegar voru starfandi. Þær lutu að skýrri aðild íbúa á nærsvæðum auk þess sem lagt var til að fulltrúar náttúruverndarsamtaka kæmu að stjórnuninni. Vegna þessara óska og „ekki síður vegna umfangs verkefnisins, bæði landfræðilega og rekstrarlega, var það talið rétt að sett yrðu sérstök lög um Vatnajökulsþjóðgarð" eins og segir í greinargerð frumvarpsins."

Sérstaða Vatnajökulsþjóðgarðs umfram aðra þjóðgarða felst í fleiru, svo sem því að hluti lands sem hann tekur til er í einkaeign. Þótt það sé heimilt samkvæmt náttúruverndarlögum hefur land innan annarra þjóðgarða að öllu leyti verið í eigu ríkisins, a.m.k. fram til vors 2010.