Þjóðgarðar‎ > ‎

Hugmyndafræðileg þróun

Hugmyndafræðileg þróun
Á síðustu 15-20 árum hefur orðið gríðarmikil hugmyndafræðileg breyting í Evrópu og víðar hvað varðar uppbyggingu og starfsemi á vernduðum svæðum, eins og þjóðgörðum. Í raun er óhætt að tala um kynslóðaskipti hugmyndafræðinnar í því sambandi. 

... og breytingar í raun og veru 
Breytingarnar eru þó ekki bara hugmyndafræðilegar heldur hafa þjóðgarðar og önnur vernduð svæði í raun verið að taka breytingum í takt við vaxandi áskorun um að verndun og nýting svæða þurfi fara saman. Starfsemi þjóðgarða og annarra verndaðra eða sérstæðra svæða er í auknum mæli skoðuð sem hluti af aðgerðum við þróun og eflingu byggðar.

Breytingarnar má m.a. rekja til vinnu Alþjóða náttúruverndarsamtakanna (IUCN) og Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem hafa á síðustu árum reynt að efla skilning stjórnvalda, þ.m.t. náttúruverndaryfirvalda, og benda á þann hag sem hafa má af vel skipulögðum verndarsvæðum. Hvatt hefur verið til þess að þjóðir marki stefnu um vernd svæða, búsetu og nýtingu. 
Í riti IUCN, Economic Values of Protected Areas (Adrian Phillips, 1998), er meðal annars fjallað um efnahagslegan ávinning af verndarsvæðum. Þar er bent á að verndarsvæði geti verið mikilvæg fyrir efnahag þjóða.
Reynsla annarra þjóða hefur enda sýnt að verndarsvæði geta skilað umfangsmiklum efnahagslegum, félagslegum og umhverfislegum ávinningi. Ný störf verða til og vöruþróun á sér stað, fólk og fjármunir hafa víða streymt inn á slík svæði, a.m.k. í auknum mæli frá því sem áður þekktist. 

Efnahagslegur ávinningur verndarsvæða.
Mynd: www.iucn.org

Efling samfélags 
Þar sem vel hefur tekist til hefur uppbygging verndarsvæða eflt byggð og atvinnulíf í næsta nágrenni, svo sem landbúnað, handverk og ferðaþjónustu. Sumsstaðar hafa verið útbúin sérstök vörumerki fyrir framleiðendur á svæðunum sem þeir geta notað til þess að markaðssetja vöru sína að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig má styrkja byggð á verndar- og jaðarsvæðum án þess að nokkuð sé slakað á kröfum um náttúruvernd. Ástralir og Kanadamanna halda því fram að öflug verndarsvæði gegni lykilhlutverki við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
 
Verndun getur stuðlað að því að halda svæðum í byggð, þar sem byggt er á staðbundnum gæðum og stuðlað að því að saman fari verndun og sjálfbær nýting. 

Í sátt og samvinnu 
Miklu skiptir að uppbygging verði í sátt og samvinnu við íbúa, stjórnvöld og margvíslega hagsmunaaðila. 
Stjórnvöld víðs vegar í heiminum leggja nú megináherslu á að fá almenning, landeigendur, fyrirtæki og aðra hagsmunaaðila til liðs við sig við uppbyggingu á verndarsvæðum.

Ávinningur jaðarsvæða er einnig mikill og "landamerki" þjóðgarða vilja að þessu leyti flæða út - nærsvæðin njóta því góðs af.