Erlend dæmi‎ > ‎

Cairngorms - Skotlandi
Um þjóðgarðinn
Í Skotlandi eru tveir þjóðgarðar, Loch Lomond and The Trossachs, sem stofnaður var árið 2002 og síðan Cairngorms, sem stofnaður var 2003. 
Cairngorms þjóðgarðurinn er í norðaustur-Skotlandi. Svæðið er  nokkuð fjöllótt, þjóðgarðurinn nær yfir Cairngorms fjallgarðinn og aðliggjandi hæðir. 
Cairngorms er stærsti þjóðgarður Bretlandseyja, 4528 ferkílómetrar eða tvöfalt stærri en Lake District og Loch Lomond and The Trossachs. 
Í dag búa rúmlega 17.000 íbúar á svæði þjóðgarðsins, sem nær yfir 21 sveitarfélög.
Stærstu þéttbýlisstaðirnir eru Aviemore, Ballater, Blair Atholl, Braemar, Grantown-on-Spey, Kingussie, Newtonmore og Tomintoul.

Mynd: www.cairngorms.co.uk

Hér verður víða vísað í vef þjóðgarðsins, www.cairngorms.co.uk.  
Athugið að með Google Translate má þýða texta á vefnum, af ensku yfir á íslensku. 
Þó ber að hafa nokkurn fyrirvara á lipurleika þýðingar yfir á íslensku.


Sérstaða þjóðgarðsins
Það einkennir marga þjóðgarða í Evrópu, ekki síst á Bretlandseyjum, að svæðin hafa um aldir verið fremur þéttbýl og fá þeirra teljast alls ósnortin af mönnum. Sú er t.d. raunin með Cairngorms, því þó svæðið sé strjálbýlt vegna fjalla sem kljúfa það í sundur, þá eru innan þjóðgarðsins þéttbýlli svæði, þorp og bæir. Í Cairngorms er því - auk ríkrar náttúru - byggt á sterkri menningararfleifð og sögu. Landslagið er mjög mótað af búsetu manna, t.d. stórar steinbyggingar, akrar og ræktaðir skógar. Sögu og menningararfleifð er viðhaldið, m.a. í tungumáli og hefðum sem haldið er fast í, eins og t.d. hálandaleikum og ýmsum hátíðum. Staðarnöfn á gelísku gefa innsýn í sögu og menningu svæðisins og tengsl mannsins við umhverfið. Innan þjóðgarðsins er einstaklega fjölbreytt landslag, 
dýralíf, vistkerfi og mannlíf.

Mynd: www.cairngorms.co.uk

Svæðið er fjöllótt, fimm af sex hæstu fjöllum Skotlands er þar að finna, og það liggur hátt, um 36% af landi þjóðgarðsins liggur í yfir 800 m h.y.s. 
Árnar Spey, Dee og Don renna um garðinn.
Lyngheiðar (beitilyng) eru einkennandi fyrir þjóðgarðinn og eru mikilvæg búsvæði ýmissa lífvera. 

Lyngheiðar - beitilyng.  
Mynd: www.freefoto.com
Um 75% af beitilyngi sem eftir er í heiminum 
er að finna í Bretlandi.

Í skógunum er að finna leifar af upphaflegu Kaledóníu-furuskógunum sem taldir eru hafa myndast við lok síðustu ísaldar og þöktu 1,5 milljón hektara lands á Bretlandseyjum. 
Í dag er talið að einungis um 1% þeirra séu eftir og ýmsir aðilar standa að því að bjarga skógunum, m.a. með gróðursetningu.

Cairngorms þjóðgarðurinn er þekktur fyrir mikið dýralíf. Stór hluti þjóðgarðssvæðisins - vötn, ár, skógar, mýrar, o.fl. - hefur verið skilgreindur sem mikilvæg búsvæði margvíslegra plöntu- og dýrategunda, sumra hverra einstakra og fágætra. 

Sauðfé, rjúpur, krónhirtir og rádýr ganga á beit uppi á heiðalöndum. Áhrif dádýra 
á gróður og umhverfi svæðisins hafa orðið tilefni heitra umræðna og sýnist sitt hverjum. Við talningu á krónhjörtum í janúar 2010 voru um 45.000 dýr í og við þjóðgarðinn. 
Mynd: www.cairngorms.co.uk

Skosku þjóðgarðarnir leggja mikla áherslu á samfélagslega og efnahagslega þróun og markmið, samhliða markmiðum um náttúruvernd og upplifun gesta. Á vef þjóðgarðsins er því haldið á lofti að hvað þetta varðar skeri skosku þjóðgarðarnir sig úr flóru flestra þjóðgarða heimsins. Í samanburði við frönsku þjóðgarðana, sem áður var lýst, með strangri vernd í hjarta hvers garðs, er munurinn a.m.k. augljós. 
Á vef þjóðgarðsins segir ennfremur að öll fyrrnefnd markmið séu jafn rétthá, en ef þau rekist á, þá verði þjóðgarðsyfirvöld að gera náttúruverndinni hærra undir höfði.

Atvinnulíf og framleiðsla 
Klasar
Greinileg klasamyndun er í atvinnulífi á svæðinu, stærstu klasarnir eru ferðaþjónusta, áfengis- og drykkjarvöruframleiðsla, skógrækt og timburframleiðsla, matvælaframleiðsla og landbúnaður. Þessir geirar eru umfangs- og þýðingarmeiri á Cairngorms svæðinu heldur en landsmeðaltal segir til um.
Aðrir klasar sem nefndir eru til sögunnar, en sem eru sýnu minni umfangs, eru upplýsingaiðnaður og skapandi greinar, einkum útgáfa og tónlist, önnur framleiðsla og iðnaður, byggingariðnaður, opinberi geirinn, heilbrigðisþjónusta og menntun. Þeir síðast nefndu eru mun minni umfangs á Cairngorms svæðinu heldur en í öðrum landshlutum.

Þjóðgarðsvörður við kennslu. Mynd: http://www.lakedistrict.gov.uk
Algengustu atvinnugreinar 
Ferðaþjónusta er fyrirferðarmest í atvinnulífinu á svæðinu og gefur um 30% teknanna. Gisti- og veitingaþjónusta er að sjálfsögðu stór þáttur þar af, en til ferðaþjónustunnar telst einnig ýmis afþreying eins og leiðsögn og margvísleg þjónusta við útivistarfólk, o.fl. 
Talið er að  a.m.k. 1,4 millj. gesta hafi komið í þjóðgarðinn (2007). 

Mikill landbúnaður er líka stundaður í Cairngorms, bæði nautgripa- og sauðfjárrækt. 
Jarðrækt er aðallega stunduð fyrir búfénað, en þó er ræktað bygg sem notað er í framleiðslu á hinu fræga skoska Whisky. 
Landbúnaður og ræktun á, fyrir margra hluta sakir, fremur erfitt uppdráttar á svæðinu. Áhrifavaldar eru t.d. loftslag, veðurfar og erfiður jarðvegur, auk fjarlægðar frá helstu mörkuðum. Þjóðgarðsyfirvöld, ásamt stjórnvöldum, hafa lagt sitt af mörkum til að styðja við greinina. Þau hafa frá upphafi unnið að því að landbúnaður, afþreying og umhverfisvernd geti farið saman þannig að ávinningur allra verði sem mestur. 
Margir bændur og ræktendur á svæðinu eru þátttakendur í umhverfisáætlunum landbúnaðar (agri-environment" schemes) sem unnið er eftir. Í því felst að þeir huga vel að umhverfinu í starfsemi sinni, t.d. með hóflegri beit og við ræktun. 

Skógrækt  er svæðinu mjög mikilvæg atvinnugrein, sem og afleiddur iðnaður og verslun með timbur. Land er ýmist í eigu einstaklinga, félagasamtaka eða opinberra aðila og hagsmunaaðilar því margir og ólíkir. 
Þjóðgarðsyfirvöld hafa sett sérstaka stefnu um skógrækt í þjóðgarðinum, þar sem hagsmunaaðilar komu að málum. 

Drykkjarvörur eru framleiddar í þó nokkrum mæli á svæðinu og augljóslega má greina klasa matar- og drykkjarframleiðenda, sem eru sterkir á svæðinu og standa undir vænum hluta atvinnutekna og þjóðarframleiðslu af svæðinu.

Vörumerki
Þjóðagarðurinn á sitt eigið vörumerki sem hann tengir gæðum og gildum þjóðgarðsins. Merkið á að tryggja samþykkta gæðaskilmála og umhverfislega sjálfbærni. 
Fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög eru hvött til að nota merkið, enda uppfylli þau viðmiðin sem að baki búa. 
Farið er reglulega yfir það hvort viðkomandi aðilar fullnægi skilmálunum og fái endurnýjað leyfi sitt til að nota merkið. 
Þjóðgarðurinn birtir lista yfir þá aðila sem fengið hafa leyfi til að nota vörumerkið. Af listanum er hægt að tengjast vefsíðum viðkomandi aðila. 

"When in the Cairngorms or planning a trip to the area,
look out for businesses displaying the logo!"
Vörumerki þjóðgarðsins: Af vefnum www.cairngorms.co.uk


Efnahagsleg áhrif þjóðgarðsins 
Talið er að Cairngorms þjóðgarðurinn hafi, á þeim tæpu 10 árum sem liðin eru frá stofnun hans, haft talsverð jákvæð áhrif á samfélagslega þróun á svæðinu. 
Þetta kemur m.a. fram í skýrslu þjóðgarðsyfirvalda um efnahag og samfélag sem unnin var 2010 og ber heitið Economic and Social Health of the Cairngorms NP 2010). Skýrslan var uppfærsla á sambærilegum upplýsingum frá árinu 2002. 

Í skýrslunni eru m.a. birtar niðurstöður greiningar á efnahagslegu ástandi og samfélagslegum atriðum á starfssvæði þjóðgarðsins. Spurt er, hvort þjóðgarðurinn sé heilbrigður" frá samfélagslegu og efnahagslegu sjónarmiði. Og ef svo er, hefur stofnun þjóðgarðsins haft sitt að segja til að svo mætti verða? Ýmsir þættir og viðmið benda til að svo sé. 
Horft er til þróunarinnar eftir stofnun þjóðgarðsins og svæðið borið saman við aðra landshluta í Skotlandi. Þar með er reynt að meta áhrif þjóðgarðsins á efnahag svæðisins og draga fram tækifæri til enn frekari styrkingar efnahagslegra þátta.  

Samsetning atvinnugreina er nokkuð óvenjuleg á svæðinu að því er segir í skýrslunni. Þá flóru prýða fjölbreyttur iðnaður, einkum whisky-framleiðsla og aðrar drykkjarvörur, skógrækt, timbursala og framleiðsla úr timbri, landbúnaður er mikilvægur og hér er eitt sterkasta ferðaþjónustusvæði Skota, eins og áður er sagt. 

Iðnaður sem byggir á landnotkun er fyrirferðarmikill. 

Opinberi geirinn er lítill en hefur þó farið vaxandi, áberandi fátæklegt er í heilbrigðisþjónustu og á efri menntunarstigum, auk þess sem stjórnsýslustofnanir eru fáar, skv. því sem skýrslan segir. 


Á heildina litið býr fólk á svæðinu við hærri standard" og meiri efnahagslega velgengni en víða annars staðar í landinu. Heilsufar er almennt gott, greinilega betra en meðaltalið, og glæpatíðni er mun lægri á svæðinu, segir í skýrslunni. 


Í skýrslunni kemur þetta m.a. fram (tölur rúnaðar af): 

Jákvæð merki: 
Íbúaþróun: úr 16.300 árið 2001 í 17.200 árið 2007, eða aukning um 4,9% á 6 árum. 
Aðfluttir/brottfluttir: Meira en 250 manns flytja í þjóðgarðinn árlega, umfram þá sem yfirgefa svæðið, flestir á vinnualdri. Slíkt er sjaldgæft á landsbyggðinni. 
Fjölgun starfa: störfum hefur fjölgað um 1000 frá stofnun garðsins, um 2/3 hluti þeirra eru í einkageiranum. Mest hefur fjölgunin verið í ferðaþjónustu.  
Hærra hlutfall sjálfstæðra atvinnurekenda er á svæðinu en annars staðar. 
Atvinnuleysi er mun minna en annars staðar í Skotlandi. Um 11.500 manns eru á vinnumarkaði, þar af eru 9000 sem eru starfsmenn fyrirtækja í annarra eigu, um 2000 eru sjálfstætt starfandi og er það hátt hlutfall á landsvísu, 200 eru atvinnulausir og restin eru nemendur í fullu námi. Um 300 manns voru án atvinnu árið 2003, þegar þjóðgarðurinn var stofnaður - um 1000 voru atvinnulausir á svæðinu seint á 9. áratug síðustu aldar. 

Neikvæð merki - ógnanir: 
Meðalaldur íbúa: Karlar 42,4 ár, konur 45 ár, sem er verulega yfir skosku meðaltali. 
Ungt fólk flytur af svæðinu í leit að menntun og frekari tækifærum, eins og alls staðar á landsbyggðinni í Skotlandi. 
Árstíðabundin störf: Mörg störf í ferðaþjónustu, en mörg mjög árstíðabundin og atvinnuöryggi lítið, margir þurfa að leita annað að vinnu þegar störf liggja niðri á svæðinu. Þetta þarf að breytast.


Miðlun sérstöðu og upplýsinga 
Góð framsetning og miðlun upplýsinga er áberandi, ekki síst á vef þjóðgarðsins, www.cairngorms.co.uk 
Þar  eru sérlega góðar upplýsingar og tenglar á efni sem stafar frá þjóðgarðinum sem opinberri stofnun og samfélagslega mikilvægri. Þar eru t.d. sérlega góðar upplýsingar um stjórnun og starfsemi þjóðgarðsins, ekki síst stefnumótun, allar áætlanir og útgáfu þeirra. Þar má líka finna upplýsingar um einstök verkefni sem þjóðgarðurinn stendur fyrir eða tekur þátt í. 
Ýmis kort má finna á vefnum og stuttar upptökur úr þjóðgarðinum og umhverfi hans. 

Þjóðgarðurinn hefur síðan sérstakan vef fyrir gesti og þá sem vilja njóta útivistar á svæðinu, http://visitcairngorms.com/ 
Sá vefur er ætlaður öðrum hópi fólks eða a.m.k. fólki sem vill kynna sér garðinn í öðrum tilgangi. 
Mjög góðar upplýsingar eru um þjóðgarðinn og svæðið í heild og flokkun upplýsinga er til fyrirmyndar. Auðvelt er að fletta upp á því sem leitað er að, vilji maður heimsækja svæðið. 

Á vefnum eru einnig upplýsingar um öll (eða mörg) fyrirtæki í viðkomandi atvinnugrein, t.d. hótel, veitingastaðir, afþreying,
en viðburðastjórnun og skipulagning ferða, leiðsögn, og afþreying virðist fyrirferðarmikil og margt í boði. 

Af vefnum visitcairngorms.com