Stefna og stjórnun

Þróun í málefnum skoskra þjóðgarða 
Í lögum um þjóðgarða frá árinu 2000 eru skilgreind fjögur markmið, þ.e. að: 
 • vernda og viðhalda náttúru- og menningararfi svæðis
 • styðja við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda svæðis 
 • auka skilning og upplifun af sérstökum gæðum svæðis 
 • ýta undir sjálfbæra efnahagslega og samfélagslega þróun í samfélögum á svæðinu 
Á árunum 2008-2010 fór fram gagnger endurskoðun á hlutverki, starfsemi og stjórnun bresku þjóðgarðanna. Umfjöllun um það er að finna á síðunni um Lake District þjóðgarðinn breska. 

Þátttaka og samvinna  
Í Cairngorms er mikið lagt upp úr greiningu á hagsmunaaðilum og samstarfi við þá, þátttöku almennings og samráði um stjórnun og starfsemi í þjóðgarðinum. 
Þetta birtist með margvíslegum hætti og má nefna eftirfarandi:
 • skipun stjórnar, þar sem 5 af 19 stjórnarmönnum eru kjörnir úr hópi heimamanna og 7 fulltrúar tilnefndir af sveitarstjórnum á svæðinu
 • nefndir og ráðgefandi ráð, skipuð heimamönnum og hagsmunaaðilum, sum a.m.k. halda opna fundi og fundargerðir allra eru aðgengilegar á vef þjóðgarðsins
 • viðmið um þátttöku almennings og samráð, 2008 
 • sérstök stefna um þátttöku almennings og hagsmunaaðila, og stefna um kvartanir og ferli þeirra
 • stefnan mótuð og sett með víðtæku samráði við fjölda hagsmunaaðila, ekki síst heimamenn 
 • ýtt undir þátttöku og samráð, og að skoðanir hagsmunaaðila eða áhugasamra berist þjóðgarðsyfirvöldum - t.d. kvartanaform og upplýsingar um hvert eigi að leita vilji fólk hafa samband og einnig ýtt undir þátttöku fólks í starfsemi og verkefnum í þjóðgarðinum
 • opnir viðburðir og fólk hvatt til að mæta
Um flest þessara atriða er fjallað nánar hér á eftir. 

As a public sector body we are always interested in your views and we have a duty to ensure that when decisions are made they take into account the views of local communities and other communities of interest.

Um samráð við almenning: af vef þjóðgarðsins, www.cairngorms.co.uk 


Stjórn þjóðgarðsins og starfsfólk
Cairngorms þjóðgarður var stofnaður í september 2003. Frá og með 1. september það ár tóku þjóðgarðsyfirvöld (Cairngorms National Park Authority, CNPA) formlega við stjórn hans.

Stjórn
Í stjórn þjóðgarðsins eru 19 einstaklingar. Sjö þeirra eru tilnefndir af skoskum ráðherrum, sjö eru tilnefndir af sveitarstjórnunum fimm á svæði þjóðgarðsins (Highland (2), Aberdeenshire (2), Moray (1), Angus (1) and Perth & Kinross (1) og fimm eru kjörnir af svæðinu. Kjörtími þeirra í stjórn er á bilinu eitt og hálft ár og upp í fjögur ár. 

Hlutverk stjórnar
Hlutverk þjóðgarðsyfirvalda er að sjá til þess að lögum um þjóðgarða sé framfylgt og marka stefnu um málefni þjóðgarðsins. 
Á vef þjóðgarðsins segir að yfirstjórn reyni að forðast tvíverknað og að störf stjórnar skarist við starfsemi annarra aðila, t.d. félagasamtaka eins og Scottish Natural Heritage. 
Hlutverk þjóðgarðsyfirvalda sé að hvetja til samstarfs ólíkra aðila og vera leiðandi fyrir alla þá sem eiga hagsmuni í þjóðgarðinum. 

Nefndir og ráð, aðkoma annarra að stjórnun
Í samræmi við mikla áherslu á þátttöku hagsmunaaðila við mótun stefnu og í starfsemi þjóðgarðsins þá eiga hagsmunaaðilar aðkomu að stjórnun og starfsemi í þjóðgarðinum, á ýmsa vegu. 
Ein birtingarmynd þess eru ráðgefandi nefndir eða ráð um málefni í þjóðgarðinum. 
Tilgangurinn með þeim er að safna sem bestri þekkingu og byggja þannig traustan grunn undir ákvarðanir um málefni þjóðgarðsins, en einnig að tryggja aðkomu hagsmunaaðila að starfsemi og stjórnun þjóðgarðsins. 

Hlutverk þess vettvangs er að vera stjórn þjóðgarðsins og fleirum til ráðgjafar um stefnumótandi atriði sjálfbærrar þróunar ferðaþjónustu í þjóðgarðinum og að hvetja til umræðu og aukins skilnings á því sviði. 
Ráðið hittist u.þ.b. fjórum sinnum á ári á mismunandi stöðum í þjóðgarðinum. Fundir ráðsins eru öllum opnir sem þess óska.
Meðlimir eru tuttugu talsins, skipaðir af þjóðgarðsstjórn eftir tilnefningum hagsmunaaðila eins og t.d. félags ferðaþjónustufyrirtækja, samtaka sveitarfélaga á Cairngorms svæðinu, umhverfisverndarsamtaka, opinberra stofnana og landeigenda. 

Einnig má t.d. minnast á ráðgjafarhóp um dádýr (The Cairngorms Deer Advisory Group), sem settur var á laggirnar árið 2006 til að auka skilning og samskipti ólíkra hagsmunaaðila á málefnum sem tengjast dádýrum í þjóðgarðinum. Hópurinn er yfirstjórn þjóðgarðsins til ráðgjafar um dádýr og stjórnun hvað þau varðar. 
Aðild að hópnum eiga margvísleg samtök heimafólks og á landsvísu, útivistarsamtök, skotveiðitengd og verndartengd samtök. 
Í smíðum er stefna eða rammi um stjórnun málefna tengdum dádýrum í þjóðgarðinum (Deer Framework for the Cairngorms National Park) og er hægt að kynna sér drög hennar frá í september 2010 á vef þjóðgarðsins. 

Einnig starfar ráðgjafarhópur um jafnrétti og aðgengi í þjóðgarðinum, en hlutverk hans er að stuðla að þátttöku og aðkomu allra hópa hagsmunaaðila, einkum þeirra sem minna mega sín, að framkvæmd markmiða þjóðgarðsins. Ráðið er í raun fulltrúar minnihlutahópa og á að gæta hagsmuna þeirra, auk þess að vera stjórnendum þjóðgarðsins og öðrum til ráðgjafar um hagfelldar leiðir til að gera þjóðgarðinn að góðum áningarstað fyrir alla. 


Starfsfólk
Um sextíu starfsmenn vinna hjá Cairngorms þjóðgarðinum. Stefna og áætlanir þjóðgarðsins 
Þjóðgarðsyfirvöld hafa mótað og samþykkt skýra stefnu í málefnum þjóðgarðsins og um tengsl hans við hagsmunaaðila, þar á meðal samfélögin sem hann er hluti af. Að þeirri vinnu kom fjöldi hagsmunaaðila sem lagði drjúgan skerf til þess sem síðar varð efniviður stefnunnar. 

Heildarstefna Cairngorms þjóðgarðsins, 2007
Fyrir þá sem eru áhugasamir um góða stefnumótun og vandaða aðferðafræði við setningu stefnu, þá er stefna Cairngorms þjóðgarðs lesefni sem ekki ætti að láta fram hjá sér fara. 

Það einkennir líka stefnu þjóðgarðsins að unnið er mjög markvisst með sérstöðu svæðisins og þjóðgarðsins og sérstaðan nýtt í skilgreiningu framtíðarsýnar og áformaðri uppbyggingu til framtíðar. 


Stefna þjóðgarðsins: www.cairngorms.co.uk

Grunnvinnan fólst í því að vinna stöðugreiningu um ástand og auðlindir þjóðgarðsins, bæði náttúrulegar og menningarlegar auðlindir, samfélagslegar og sem tengjast afþreyingu. 
Þessa greiningu er að finna í stöðuskýrslu (State of the Park Report 2006). 

Í stefnunni er síðan að finna skilgreinda framtíðarsýn (Vision) 
til ársins 2030 um málefni þjóðgarðsins, sett fram sameiginlega 
af mörgum, ólíkum aðilum sem tengjast stjórnun hans. 
Framtíðarsýn árið 2030 er síðan fylgt eftir í smáatriðum með töflu og yfirliti yfir stöðu einstakra atriða árið 2006 og til samanburðar er lýsing á stöðunni eins og hún er áformuð árið 2030. 
Um framtíðarsýn, sjá bls. 4 í stefnu þjóðgarðsins

Árið 2010 var stefnan endurskoðuð. Þá var m.a. dregin upp framtíðarsýn samfélagsins (Community Vision) þar sem hvert sveitarfélag á starfssvæði þjóðgarðsins skilgreindi stöðu sína til framtíðar. 
Framtíðarsýn Cairngorms þjóðgarðs:

Imagine a world-class National Park
An outstanding environment in which 
the natural and cultural resources are cared for 
by the people who live there and visit; 
a renowned international destination 
with fantastic opportunities for all to enjoy its special places; 
an exemplar of sustainable development 
showing how people and place can thrive together. 
A National Park that makes a significant contribution 
to our local, regional and national identity.
This is our vision for the Cairngorms National Park in 2030.

Fimm leiðarljós (Guiding Principles) eru skilgreind fyrir þjóðgarðsstjórn og aðra sem koma að stjórnun í þjóðgarðinum. Leiðarljósin eiga að vísa veginn við ákvörðunartöku um málefni þjóðgarðsins, í átt að markmiðunum fjórum. 
Leiðarljósin snúast um sjálfbæra þróun í þjóðgarðinum, jöfnuð og réttlæti, þátttöku almennings, breytingastjórnun og víðsýni og þann virðisauka sem þjóðgarðurinn leggur drög að. 
Um leiðarljósin, sjá bls. 32 í stefnu þjóðgarðsins

Fjögur meginmarkmið (Strategic Objectives) eru skilgreind og dregin upp mynd af því hvernig allir hagsmunaaðilarnir geta unnið saman að því að uppfylla sett markmið - allt í því skyni að búa til þjóðgarð á heimsmælikvarða, eins og segir á vef þjóðgarðsins. 
Um meginmarkmiðin, sjá bls. 35-87 í stefnu þjóðgarðsins

Meginmarkmiðin eru sett fram undir þremur fyrirsögnum sem allar skírskota til þess sem fram kemur í framtíðarsýninni, þ.e.: 
 • að vernda og viðhalda þjóðgarðinum
 • að búa og vinna í þjóðgarðinum
 • að njóta og skilja þjóðgarðinn 
Stefnan er í raun rammi um stjórnun og forgangsröðun aðgerða til fimm ára, 2007-2012. Forgangsatriðin (Priorities for Action) snúa að því að vernda og viðhalda fjölbreytileika og landslagi, samþætta opinberan stuðning við landnotkun og stjórnun, styðja við sjálfbæra stjórnun málefna tengdum dádýrum, auka tækifæri til afþreyingar og aðgengis að náttúrunni, auka heppilega valkosti í húsnæðismálum, auka skilning og meðvitund fólks um málefni þjóðgarðsins og auka sjálfbærni í ferðaþjónustu og fleiri greinum.
Nánar um forgangsatriðin á bls. 88-118 í stefnu þjóðgarðsins

Stefnan var staðfest af skosku fagráðherrunum í mars 2007. 
Í frétt á vef þjóðgarðsins var því lýst hvaða breytingar stefnan myndi leiða af sér, ekki eingöngu fyrir náttúru og menningu í þjóðgarðinum, heldur einnig á heilsu, ánægju og velferð allra þeirra sem nýta og njóta þjóðgarðsins. 
Stefnan var svo endurskoðuð árið 2010. 

Innleiðing stefnu og eftirfylgni
Stefna þjóðgarðsins verður innleidd og framkvæmd í samvinnu við fjölda aðila. Hægt er að fylgjast með framkvæmd stefnunnar í árlegum framvinduskýrslum sem sýna hvernig aðilum miðar í að framfylgja stefnunni, auk þess sem fjögurra mánaða uppfærsla á framkvæmd forgangsatriðanna er birt á vefnum. Innleiðingar- og endurskoðunarferli fyrir stefnu þjóðgarðsins:
www.cairngorms.co.uk

Skipulagsáætlun þjóðgarðsins 
Þjóðgarðurinn ásamt sveitarfélögum á svæðinu vann skipulag svæðisins (local plan) þar sem stefnt er að því að uppfylla meginmarkmið þjóðgarðsins. Um er að ræða lögbundið skipulag fyrir þjóðgarðinn og sameinar í eina áætlun eldri skipulagsáætlanir sem stafa frá sveitarstjórnum á svæðinu. 
Áætlunin bindur þjóðgarðinn sem og sveitarfélögin á svæðinu og verða allar umsóknir um framkvæmdir á svæðinu metnar samkvæmt þessari áætlun. 
Skipulagsáætlunin byggir að langmestu leyti á heildarstefnu Cairngorms, sem skilgreinir markmið og sýn þjóðgarðsins til lengri og skemmri tíma. Áætlunin er eitt meginstjórntækið til að útfæra og framfylgja stefnu og markmiðum þjóðgarðsins um þróun og landnotkun. 
Áætlunin var samþykkt af þjóðgarðsstjórn í október 2010. 

Hér má einnig nefna að þjóðgarðurinn vinnur einnig og gefur út innri stefnu (Corporate Plan) á þriggja ára fresti. Þar er gerð grein fyrir ráðstöfun aðfanga og áformum um hvernig vinna eigi að því að uppfylla markmið laga og stefnu. 
 
Auk þess má hér nefna samgönguáætlun þjóðgarðsins (Cairngorms National Park Draft Core Paths Plan) sem skilgreinir stíga og vegi sem veita fólki aðgang að þjóðgarðinum. 

Þjóðgarðsyfirvöld hafa einnig mótað og samþykkt stefnu þjóðgarðsins um margvísleg, aðgreind atriði til stuðnings og fyllingar við heildarstefnu þjóðgarðsins. 
Stefnuplögg þessi vísa veginn og eru stjórnendum þjóðgarðsins 
og samstarfsaðilunum til stuðnings í ákvörðunartöku um málefni þjóðgarðsins og hvernig ná megi markmiðum hans. 
Til dæmis má nefna stefnumótun um eftirfarandi: 

Skógrækt
Þjóðgarðsyfirvöld hafa sett sérstaka stefnu um skógrækt í þjóðgarðinum. Ólíkir hagsmunaaðilar komu að máli við mótun stefnunnar, t.d. landeigendur, bændur, sveitarfélög, útivistarsamtök og fleiri. Stefnan setur ákveðinn ramma og leiðarljós fyrir stjórnendur þjóðgarðsins og aðra hagsmunaaðila um aðgerðir og stjórnun skógræktar og skóglendis í þjóðgarðinum. Markmið og forgangsröðun miðar t.d. að því að skilgreina nauðsynlegar aðgerðir til að berjast gegn loftslagsbreytingum og bæta umhverfið, byggja upp sjálfbæran timburiðnað og styðja við vöruþróun á þessu sviði, stuðla að bættu aðgengi fólks að skógum og ýta undir jákvæða samfélagslega þróun. 
Stefnan styður við heildarstefnu þjóðgarðsins og inniheldur líka sjö meginmarkmið eða þemu í stefnu skoskra skógræktaryfirvalda. Ávinningurinn er sagður verðmæt blanda fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, landnotkun og efnahag, afþreyingu og landslag. 
Stefna um skógrækt í Cairngorms þjóðgarðinum;  www.cairngorms.co.uk

Jafnrétti
Þjóðgarðsyfirvöld hafa einnig sett jafnréttisáætlun sem er hluti af skuldbindingu þeirra um að tryggja jöfn tækifæri í starfsemi þjóðgarðsins og sem vinnuveitandi. Ein stefna inniheldur markmið varðandi jafnrétti kynja og kynþátta, fatlaðra og ófatlaðra. 

Aðgengi og umgengni við náttúru 
Á vef þjóðgarðsins er að finna stefnu um umgengni. Í umfjöllun segir að Cairngorms sé sérstakur staður, þekktur og skilgreindur þannig að bæði íbúar og gestir eigi að geta upplifað þar og fundið ýmsa afþreyingu í nánum tengslum við náttúruna. Fólki er frjálst að skoða náttúruna og njóta hennar, með ýmsu móti, gangandi, í hjólastól, á hestbaki eða reiðhjóli, eða jafnvel á bát eða kanó, svo lengi sem þeir gera það á ábyrgan hátt og af virðingu við umhverfi og annað fólk, í samræmi við reglur um umgengni í skoskri náttúru
    
Þátttaka almennings og samráð 
Skotar eiga staðla eða viðmið um þátttöku almennings og samráð, sem gefnir voru út af sveitarfélögunum eða sambandi þeirra og eru hluti af skipulagslögum frá 2003. Árið 2006 skoðuðu þjóðgarðsyfirvöld í Cairngorms þessa staðla í því skyni að nota þá til hliðsjónar í eigin starfsemi hvað varðaði samskipti og samráð við almenning. Að fengnum athugasemdum sem leitað var eftir hjá fulltrúum heimamanna ákváðu þjóðgarðsyfirvöld að útbúa eigin útgáfu af slíkum viðmiðum, þar sem viðmiðin á landsvísu þóttu of fyrirskrifuð og þung í vöfum. Viðmið þjóðgarðsins endurspegla þó öll meginsjónarmið landsviðmiðanna og voru notuð til prufu í tveimur stórum samráðsverkefnum á vegum þjóðgarðsins og samstarfsaðila 2007 og 2008. 
Í september 2008 voru viðmiðin samþykkt af stjórn þjóðgarðsins og eru notuð af stjórnendum og starfsfólki, auk þess sem þau eru birt opinberlega. Þannig má öllum vera ljóst hvers sé að vænta í samskiptum við þjóðgarðinn, varðandi þátttöku almennings.  

Kvartanir og athugasemdir 
Þjóðgarðurinn er opinber stofnun og hefur skilgreint hvernig meðhöndla eigi kvartanir og ágreining. 
Góðar leiðbeiningar er að finna á vefnum um hvert þeir eigi að snúa sér sem vilja kvarta eða gera athugasemdir. 
Sett hefur verið sérstök stefna um kvartanir og ferli skilgreint. Starfsmönnum ber skylda til að vinna eftir þeirri stefnu og taka á móti kvörtunum í samræmi við ferlið. 
Tilgreint er að kvörtunum verði svarað innan 20 vinnudaga frá móttöku þeirra. Einnig er gefið upp hvert eigi að snúa sér, ef kvartandi er ekki ánægður með viðbrögð við kvörtun. 

Hér mæ
tti einnig nefna:
Yfirlýsingu þjóðgarðsstjórnar um stjórnun og fjárhag, sem mótuð var af yfirvöldum umhverfis- og byggðamála í Skotlandi (the Scottish Executive Environment and Rural Affairs Department) í samráði við yfirvöld Cairngorms þjóðgarðs. Yfirlýsingin inniheldur markmið og skuldbindingu þjóðgarðsyfirvalda um þann ramma sem starfað er eftir, m.a. um stefnu þjóðgarðsins sem á að vera í samræmi við stefnu skoskra yfirvalda, lög og reglur, og um ábyrgð og skyldur stjórnenda þjóðgarðsins. Samhliða yfirlýsingunni er sett fram minnisblað um fjárhagsleg atriði (financial memorandum) sem þjóðgarðsyfirvöld eru skuldbundin að virða í rekstri og starfsemi. Tekið er fram að þessar yfirlýsingar séu ekki tæmandi eða komi í stað lagaramma og ábyrgðar að lögum. Yfirlýsinguna á að endurskoða á 2ja - 3ja ára fresti. 

Ráðning starfsmanna
Þjóðgarðurinn segir á vef sínum að hann sé vinnuveitandi sem virði jöfn tækifæri. Öll laus störf séu auglýst og starfsmenn ráðnir á grundvelli þekkingar sinnar og hæfni á viðkomandi sviði. Sérstök ráðningarstefna þjóðgarðsins er samþykkt og birt á vefnum.