Erlend dæmi‎ > ‎

Lake District - Bretlandi


Um þjóðgarðinn
Á Bretlandseyjum eru fimmtán þjóðgarðar, tveir í Skotlandi en þrettán á Englandi. 
Þeirra á meðal er Lake District þjóðgarðurinn í hinu svokallaða Vatnahéraði í norðvesturhluta Englands.
Lake District þjóðgarðurinn var stofnaður árið 1951 og er sá stærsti á Englandi og næst stærstur á Bretlandseyjum öllum, á eftir Cairngorms sem er stærstur. 
Hann er 2.300 km2 að stærð. 
Í dag (2011) búa á þjóðgarðssvæðinu um 42.400 íbúar. 

Lake District á Englandi. Mynd: http://www.lakedistrict.gov.uk

Hér verður víða vísað í vef þjóðgarðsins, www.lakedistrict.gov.uk   
Athugið að með Google Translate má þýða texta á vefnum, af ensku yfir á íslensku. 
Þó ber að hafa nokkurn fyrirvara á lipurleika þýðingar yfir á íslensku.

Hvati að stofnun 
Áður hefur hér verið lýst aðdraganda að stofnun þjóðgarða víðs vegar í heiminum og hvað það var sem dró athygli fólks að gæðum óbyggðs eða lítt raskaðs lands og náttúru. 
Í Bretlandi voru sömu kraftar að verki; sókn fólks í náttúruna og einkum var landslagið hátt skrifað. Fegurð breska sveitalandslagsins varð skáldunum yrkisefni, náttúran og landið með sínum hæðum og ásum, vötnum og votlendi, og margir töldu það næra sálina. 
Togstreita milli landeigenda og borgarbúa jókst, eftir því sem aðgangur að óbyggðu landi varð erfiðari. Hugmyndir um þjóðareign (national property) svo mikilvægra gæða áttu æ sterkari talsmenn og 1920-1940 jókst þrýstingur á stjórnvöld um að tryggja verndun breska sveitalandslagsins og aðgang að náttúrunni. 
Meðan heimsstyrjöldin síðari geysaði var undirbúningur í gangi  af hálfu bresku ríkisstjórnarinnar og árið 1951 var Lake District þjóðgarðurinn formlega stofnaður og sérstök stjórn sett yfir hann. 

Sérstaða þjóðgarðsins

Landslagið og náttúran er sérstaða Lake District. Það einkennist af hæðum og dölum með ökrum og bújörðum, að ógleymdum fjölda vatna þar sem hægt er að stunda fjölbreyttar vatnaíþróttir.


Á svæðinu er hæsti tindur Englands, Scafell Pike (978 m y.s.), 
og Wastwater (eða Wast Water), dýpsta stöðuvatn landsins
(79 m djúpt). 

Scafell Pike og Wastwater. Mynd: Wikipedia

Á vef þjóðgarðsins má finna umfjöllun um að Lake District sé þekkt fyrir meiri rigningu en margir aðrir staðir á Bretlandi. Ástæða þess er rakin til áhrifa Atlantshafsins og veðra sem þaðan koma, skýja sem steyta á fjöllum Lake District, stíga upp og kólna og hella svo úr sér rigningu eða snjó. Vafalaust er þetta hluti af sérstöðu svæðisins og aðlaðandi í augum margra!


Hér má einnig nefna að öfugt við það sem gerist í Bandaríkjunum og víðar, þá eiga þjóðgarðsyfirvöld eða ríkið ekki endilega allt land þjóðgarða í Bretlandi. Í Lake District eiga þjóðgarðsyfirvöld 3,9% þess lands sem garðurinn nær yfir. Mestur hluti landsins er í einkaeigu, aðallega í eigu sjóða og félagasamtaka, eins og the National Trust, sem eru góðgerðarsamtök með 3,6 milljón félaga og vatns- og fráveitufyrirtækisins United Utilities og einnig Forest Enterprise. sem er stofnun á vegum ríkisins og sér um vernd og viðgang breskra skóga og votlendis. 


Umsókn til heimsminjaskrárnefndar Unesco
Yfirvöld í Cumbria, ásamt þjóðgarðsyfirvöldum og fleirum, hafa sótt um að Lake District þjóðgarðurinn verði tekinn á heimsminjaskrá Unesco, allur eða að hluta til. 
Umsóknin er byggð á sérstæðu landslagi í þjóðgarðinum og áhrifum þess á manneskjuna. 
Hægt er lesa um umsóknina og undirbúning Lake District á sérstökum vef um verkefnið, en aðstandendur telja að gríðarleg tækifæri felist í því fyrir héraðið að verða tekið á heimsminjaskrá. 
Snowy Queen's Head Hotel í Troutbeck.
Mynd: 
Atvinnulíf og framleiðsla 
Ferðaþjónusta er stærsta atvinnugreinin á svæðinu. Um 35% vinnandi einstaklinga innan þjóðgarðsins sjálfs hafa atvinnu í gisti- og veitingageiranum. 

Á svæðinu er stundaður svokallaður hálandabúskapur sem byggir á nýtingu háheiða og fjalllendis, einkum til beitar. Helstu búgreinar á svæðinu eru sauðfjárrækt og nautgriparækt.

Bændum reynist erfitt að lifa af búskapnum einum sér og hafa því flestir einhverja aukabúgrein eins og ferðaþjónustu sem fer ört vaxandi í Lake District. Þá bjóða þeir gjarnan upp á gistingu og morgunverð, kaffihús á býlunum og sölu veiðileyfa svo að eitthvað sé nefnt. 

Mikil fækkun hefur orðið meðal bænda á svæðinu síðustu ár og á aðeins tíu ára tímabili 1981-1991 fækkaði þeim sem byggja afkomu sína á landbúnaði um 15%. Breska ríkið vill halda við landbúnaði í héraðinu þar sem hann hefur einkennt svæðið öldum saman og menning Lake District svæðisins er byggð á honum. 
Til þess að styðja við bakið á landbúnaði veitir breska ríkið ásamt Evrópusambandinu þeim bændum styrki sem numið geta allt að 80% af heildartekjum þeirra. 

Þrátt fyrir ákveðnar reglur þjóðgarðsyfirvalda um verndun búsetulandslags hafa þau sýnt þeim bændum skilning sem hyggjast byggja upp ferðaþjónustu á býli sínu ef ekki er um að ræða stórar framkvæmdir, þar sem áhersla er lögð á það í Lake District að varðveita lítil og meðalstór býli sem þykja einkennandi fyrir svæðið. 

Fjármál og umhverfismál 
Breska ríkið fjármagnar um 75% útgjalda þjóðgarðsins, þ.e. sá kostnaður sem eftir situr þegar búið er að draga frá innkomu þjóðgarðsyfirvalda sem m.a. safnast með bílastæðagjöldum og sölu á ýmsu prentuðum upplýsingum um þjóðgarðinn. Héraðsyfirvöld í Cumbria standa straum af um 25% útgjaldanna. 

Árið 1993 var stofnað félag til að stýra fjármögnun og rekstri sjóða fyrir rekstur þjóðgarðsins (Lake District Tourism & Conservation Partnership). Félagið leitast við að tengja náttúruvernd og ferðamennsku og sýna fram á að þetta tvennt geti haft stuðning hvort af öðru. Meðal markmiða félagsins er að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku og hafa umsjón með sjóðum til styrktar nauðsynlegum verkefnum í náttúruvernd á svæðinu. 
Þeir sem tryggja fjárhagslega afkomu félagsins eru áhugasamir einstaklingar, fyrirtæki innan héraðsins og helstu félagasamtök.

Lake District er með umhverfisstimpilinn Green Globe Destination Status fyrir stjórnun í anda sjálfbærrar þróunar. Fyrirtæki á svæðinu viðurkenna mikilvægi þess að þau leggi sitt af mörkum til að hægt sé að vernda og halda við landslagi og að til þess séu notaðar aðferðir eins og gjald á ferðamenn og skattar sem ganga upp í viðhald á stígum, brúm, o.s.frv.  
Umhverfisstimpillinn Green Globe Destination Status var settur á stofn af World Travel and Tourism Council eftir Ríó-ráðstefnuna 1992.

Miðlun sérstöðu og upplýsinga 
Lake District þjóðgarðurinn hefur mjög öfluga vefsíðu sem þegar hefur verið vísað í hér að framan. 

Vefur þjóðgarðsins, 
http://www.lakedistrict.gov.uk

Á vefsíðunni 
er m.a. að finna upplýsingar um sérstöðu þjóðgarðsins, sögu hans, stjórnun, stefnu og áætlanir. 
Þar má sjá lista yfir helstu útgáfur og áætlanir sem varða stefnu og stjórnun, auk ársskýrslna.

Margvíslegar upplýsingar fyrir gesti er einnig að finna á vefnum og lögð er áhersla á allt sem hægt er að njóta í garðinum, út frá ólíkum áhugasviðum gesta og aldri þeirra. Sem dæmi má nefna upplýsingar um sýningarvatnasportblómstrandi garða þjóðgarðsins, heimsóknir hópa og margt fleira. 

Sérstakur vefur er fyrir gestastofuna Brockhole, sem er heill heimur út af fyrir sig. Þar er mikið reynt að höfða til barnafjölskyldna, en margvísleg þjónusta og aðstaða stendur þeim til boða. 

Sex vefmyndavélar frá mismunandi stöðum í þjóðgarðinum. Og sérstök veðurlína sem hægt er að hringja í gefur upplýsingar um veðrið á svæðinu - Weatherline.
Til að gefa forskot á sæluna, þá er hægt að skoða Video-upptökur  af stöðum og athöfnum í garðinum. 

Góðar upplýsingar er að finna um aðgengi að þjóðgarðinum, bæði um það hvernig megi komast þangað, um aðgengi fyrir fólk með ólíkar þarfir í þjóðgarðinum sjálfum, um opnunartíma og fleira sem auðveldar fólki skipulagningu ferða sinna og heimsókna í garðinn. T.d. er lögð áhersla á góða aðstöðu fyrir börn og aðgengi og þjónustu fyrir fatlaða. 
Hér má t.d. finna gagnvirk kort

Þjóðgarðurinn er á Facebook og hann hefur líka Twitter-síðu. Reyndar eru þær þrjár og upplýsingar um hvernig eigi að bera sig að við að tengjast má fá hér.

Tölur og upplýsingar 
Ýmsar upplýsingar og tölur er að finna um þjóðgarðinn og samfélagið í skýrslu um ástand garðsins (State of the Park Report)  frá 2005. Hún byggir að hluta til á annarri rannsókn sem gerð var 2004 um samfélag og efnahag í þjóðgarðinum og ber heitið A Social and Economic Profile of the Lake District National Park.

Í skýrslunum koma fram áhugaverðar lýðfræðilegar upplýsingar, auk upplýsinga um efnahagslegar stærðir. Skýrslurnar eru stöðuskýrslur og lýsa ástandinu á þeim tíma sem þær eru unnar. Ætlun þjógarðsyfirvalda er að vinna sambærilegar skýrslur með reglulegu millibili til að fá haldgóða mynd af þróun mikilvægra samfélagslega og efnahagslegra þátta í þjóðgarðinum.