Stefna og stjórnun

Þróun í málefnum breskra þjóðgarða  
Samkvæmt áætlunum (Structural Reform Plan, frá júlí 2010) DEFRA (Department for Environment, Food and Rural Affairs) sem ber ábyrgð á stefnu og framkvæmd málefna umhverfis, fæðu og landsbyggðar, þá á að endurskoða stjórnun þjóðgarða í Bretlandi til að auka staðbundna ábyrgð (to review the governance arrangements of National Parks in order to increase local accountability). 
Tilgangur endurskoðunarinnar er að leita leiða til að gera stjórnun þjóðgarðanna enn skilvirkari og hæfari til að bregðast við áhyggjum og áskorunum sem samfélögin á viðkomandi svæði standa frammi fyrir. Jafnframt eiga yfirvöld þjóðgarða að skoða hvaða aðgerðir, m.a. stjórnunarlegar, henti best í þessu skyni á hverjum stað. Talað er um að ólíkra aðferða geti verið þörf á hverjum stað. 
Í þessu skyni á m.a. að skoða skipan í stjórnir og ráð, aðferðir við slíkt val, lengd stjórnarsetu og hvernig styrkja megi tengsl þjóðgarða við sveitarfélögin og íbúa svæðisins. 
Þjóðgarðsyfirvöld á hverjum stað eru hvött til samráðs við heimamenn um þær breytingar sem kæmu svæðinu til góða, auk þess að varpa ljósi á stöðu þjóðgarðanna sem þjóðareignar. 
Vilji breskra stjórnvalda er að stjórn þjóðgarðanna verði áfram staðbundin og sjálfstæð, og hafi meðal annars, eins og hingað til, skipulagsmál þjóðgarðanna á sinni könnu.   
Samráð við almenning fór fram í nóvember 2010 - febrúar 2011. Finna má upplýsingar um þetta ferli, um athugasemdir og skilaboð sem komu út úr þessu samráði fyrir Lake District þjóðgarðinn á vef þjóðgarðsins. 
Í marslok 2011 voru væntanlegar tillögur þjóðgarðsins til DEFRA um breytingar á grundvelli alls þessa. 

Brockhole, gestastofa Lake District þjóðgarðs. 
Mynd: http://www.lakedistrict.gov.uk

Stjórn og starfsfólk þjóðgarðsins     
Yfirstjórn, nefndir, samráðshópar og starfsfólk starfa að málefnum þjóðgarðsins. 
Um störf stjórnar og nefnda gilda sérstakar siðareglur (A Members Code of Conduct) sem birtar eru á vef þjóðgarðsins. 

Stjórn
Í yfirstjórn þjóðgarðsins (Authority) eru 22 einstaklingar (Members) sem eiga að gæta hagsmuna almennings. Þeir eru fulltrúar eftirtalinna opinberu aðila:
  • 6 tilnefndir af sýsluráði (County Council) Cumbria-sýslu
  • 6 tilnefndir af héraðsráði þeirra svæða sem eiga land í þjóðgarðinum
  • 10 tilnefndir af „the Secretary of State" sem fulltrúar hagsmuna þjóðarinnar í heild og einstakra sveitarstjórna á svæði þjóðgarðsins. Af þeim tilnefna Samtök sveitarfélaga í Cumbria þá fulltrúa sem þau hafa valið og hljóta þeir staðfestinu hjá the Secretary of State". Önnur sæti sem hann tilnefnir eru auglýst opinberlega og geta áhugasamir sótt um að verða tilnefndir. Skipun fulltrúa er upphaflega til fjögurra ára en má framlengja, þó þannig að enginn má sitja lengur en í 10 ár skv. tilnefningu. 
Stjórnin hefur yfirumsjón með málefnum þjóðgarðsins. Hún tekur til ákvörðunar málefni sem stafa frá undirnefndum, tekur ákvarðanir um stefnumótandi mál og þau sem hafa umtalsverð áhrif í starfsemi þjóðgarðsins, staðfestir skipulags- og þróunaráætlanir og sýslar með styrki úr sjóðum á vegum þjóðgarðsins. 

Nefndir
Eftirtaldar undirnefndir starfa um málefni þjóðgarðsins:

Endurskoðunarnefnd sem hefur með höndum endurskoðun á fjármálum þjóðgarðsins og allt það sem lýtur að siðareglum starfsmanna. 

Þróunarnefnd (Development Control Committee) sem hittist mánaðarlega, sér um skipulagsmál og framkvæmdaleyfi í þjóðgarðinum, og annað það sem byggist á skipulagslögum. 

Framkvæmdanefnd (Executive Performance Committee) sem er framkvæmdastjóra þjóðgarðsins til aðstoðar og eiga jafnframt að fylgjast með störfum hans og árangri. 

Nefnd um stefnu og framtíðarsýn (Park Strategy and Vision Committee) sem sér um stefnu þjóðgarðsins og skipulagsmál, svæðisþróun, framkvæmd stjórnunaráætlunar og málefni sem snerta heimsminjaskrána, en Lake District hefur eins og áður kom fram sótt um að verða tekið á heimsminjaskrá Unesco. 

Aðfanganefnd (Resources Committee) sem hefur með höndum fjármál, innkaup, eignastjórnun, áhættumat og mannauðsmál. 

Starfsfólk 
Um 200 starfsmenn eru hjá þjóðgarðinum. Þeirra á meðal eru hinir svokölluðu rangers, sem vinna við að leiðsegja gestum þjóðgarðsins, gjarnan á afmörkuðum sviðum eða landsvæðum. Leiðbeinendur eru í upplýsingamiðstöðvum þjóðgarðsins, starfsmenn við skógrækt, skógarvörslu og umsjón fasteigna, skipulagsfræðingar og aðstoðarfólk sem vinnur við skipulag þjóðgarðsins og málefni því tengd, vistfræðingar og fornleifafræðingar, auk starfsfólks við stjórnun og skrifstofustörf. 

Í framkvæmdastjórn þjóðgarðsins eru framkvæmdastjóri þjóðgarðsins (Chief Executive), aðstoðarframkvæmdastjóri sem sér um framkvæmd áætlana, mannauðsmál og fjármál (Director of Corporate Services), sviðsstjóri eigna- og þjónustu (Director of Park Services) og sviðsstjóri skipulags og samskipta (Director of Planning and Partnerships) sem sér um mótun og framkvæmd stefnu þjóðgarðsins, auk samskipta við samstarfs- og hagsmunaaðila. 

Samstarfsnefnd þjóðgarðsins  
The Lake District National Park Partnership samanstendur af nokkrum lykilsamtökum eða stofnunum sem hafa hlutverk í starfsemi þjóðgarðsins. Þessir aðilar vildu sameina krafta sína til að efla þjóðgarðinn enn frekar og bjuggu því til þennan vettvang árið 2006 til að hrinda ýmsum góðum málum í framkvæmd. 
Í sambandinu eru fulltrúar úr opinbera og einkageiranum, og úr þriðja geiranum (sjálfboðaliða- og góðgerðarsamtök) sem og fulltrúar úr samfélögunum á svæðinu. 
Sjá lista yfir þessa aðila, frá september 2010. 

Aðilarnir gerðu með sér sérstakan samning en 
félagsskapurinn er í senn gott bakland og samstarfsaðilar þjóðgarðsyfirvalda og mikilvæg tenging við hagsmunaaðila í þjóðgarðinum. Þessi félagsskapur er skilgreindur 
eigandi" framtíðarsýnar þjóðgarðsins og vinnur að því að hrinda ýmsum viðfangsefnum stjórnunaráætlunar þjóðgarðsins í framkvæmd. Þjóðgarðsstjórnin er einn aðilanna í þessum félagsskap. 

Auk þess hefur samstarfsnefndin tekið að sér hlutverk í þróun nýrrar skipulagsáætlunar fyrir þjóðgarðinn, í samræmi við ákvæði í skipulagslögum frá 2004 um það sem nefnt er Local Development Framework til að halda utan um samráð í skipulagsgerð. 
Stefna þjóðgarðsins
Stefnumótun Lake District er unnin í nánu samráði við samstarfsnefnd þjóðgarðsins og aðra áhugasama, almenning og heimamenn. Reyndar á það við um flestar áætlanir sem gerðar eru, að samráð er hluti af vinnuferlinu. Er það í samræmi við yfirlýst viðmið og stefnu þjóðgarðsins, að vinna með hagsmunaaðilum. 
Heildarstefna þjóðgarðsins er skilgreind í stjórnunaráætlun hans (Management Plan) og er gerð grein fyrir henni hér á eftir. 

Stefnumótunarvinnan hófst árið 2005 með samráði við fjölmargar stofnanir og almenning, og var lögð áhersla á að fá fram sýn fólks á stöðu þjóðgarðsins til framtíðar, eftir 25 ár. 
Ári síðar tók samstarfsnefndin þessa sýn og gerði hana að grundvelli stefnumótunarvinnunnar. 

Stjórnunaráætlun og aðgerðir
Nýjasta stjórnunaráætlun þjóðgarðsins (The Management Plan) er frá september 2010. Hún gildir fyrir árin 2010-2015 og er kölluð The Partnership’s Plan" sökum þess að hún var unnin af hinum fjölmörgu meðlimum í samstarfsnefnd þjóðgarðsins (The Lake District National Park Partnership). Aðrir aðilar, utan samstarfs-nefndarinnar, höfðu þó líka sitt að segja um stjórnunaráætlunina. 
Samstarfsnefndin samþykkti svo hina endanlegu stjórnunaráætlun og er lykilaðili við framkvæmd hennar. 

Stjórnunaráætlunin inniheldur heildarstefnu þjóðgarðsins. 
Í upphafskaflanum er að finna stöðugreiningu; gerð er grein fyrir sérstökum gæðum eða sérstöðu (special qualities) þjóðgarðsins og reifaðar eru helstu áskoranir eða erfiðar ákvarðanir sem taka þarf um málefni þjóðgarðsins til að tryggja jafnvægi. 
Framtíðarsýn (vision) er því næst skilgreind (sjá nánar hér á eftir) og síðan meginmarkmið sem byggja á þeim fjórum þemum" sem framtíðarsýnin inniheldur. Undir hverju meginmarkmiði eru svo skilgreind sex starfsmarkmið eða leiðir til að gera framtíðarsýnina að raunveruleika. Strax í kjölfarið fylgir aðgerðaáætlun sem útfærir markmiðin í nákvæmum atriðum og í restina er kafli um innleiðingu, eftirfylgni, lærdóm og endurskoðun stefnunnar. 

Hlutverk skilgreint í löggjöf
Áður en vikið er nánar að innihaldi stjórnunaráætlunar þjóðgarðsins er rétt að gera grein fyrir skilgreindu hlutverki þjóðgarðsins og stjórnenda hans. 
Í umhverfislöggjöfinni bresku frá 1995 (the Environment Act 1995) er tilgangur og hlutverk þjóðgarðsyfirvalda, eins og í Lake District, skilgreint. Það er að:
  • vernda og viðhalda náttúrufegurð, dýralífi og menningararfi þjóðgarðsins 
  • kynna almenningi tækifærin til að uppgötva og njóta sérstakra gæða þjóðgarðsins.
  • styrkja efnahagslega og samfélagslega velferð í sveitarfélögum á starfssvæði þjóðgarðsins, með því að vinna náið með stofnunum og staðbundnum stjórnvöldum. 
Í 62. gr. laganna frá 1995 er að finna ákvæði sem gerir ráð fyrir því að komi upp togstreita milli ólíkra markmiða eða tilgangs þjóðgarðsins, þá skuli vernd náttúrunnar hafa forgang. 
Þarna er vísað til ákvæðis sem nefnt hefur verið 
The Sandford Principle". Það vísar til Sandford-nefndarinnar sem lagði til þá meginreglu, árið 1974, að gæða þjóðgarða ætti ávallt að njóta þannig að náttúran og fegurð hennar bæru ekki skaða af, í þágu núverandi og komandi kynslóða. 

Mynd úr gestastofu: http://www.brockhole.co.uk

Framtíðarsýn
Í stjórnunaráætlun þjóðgarðsins er skilgreind framtíðarsýn fyrir Lake District þjóðgarðinn og á henni byggjast markmið stefnunnar og áætlun um aðgerðir. 
Framtíðarsýninni verður best lýst á frummálinu: 

"The Lake District National Park 
will be an inspirational example 
of sustainable development in action."

Spurt er: Hvernig verður þjóðgarðurinn?

"It will be a place where its 
prosperous economy, 
world class visitor experiences 
and vibrant communities 
come together to sustain 
the spectacular landscape, its wildlife and cultural heritage."

Spurt er: Hver mun gera framtíðarsýnina að veruleika?
Því er svarað með því að heimamenn, gestir og þau fjölmörgu félagasamtök og stofnanir sem vinni í þjóðgarðinum eða hafi hagsmuni í málefnum hans, verði að sameinast um að gera framtíðarsýnina að veruleika. 

Markmið
Eins og áður sagði eru skilgreind fjögur meginmarkmið í samræmi við framtíðarsýn þjóðgarðsins. Undirmarkmið eða starfsmarkmið eru skilgreind undir hverju meginmarkmiði, sex talsins, samtals 24 undirmarkmið. Með framkvæmd þeirra á að gera framtíðarsýnina að veruleika.
Þessu til viðbótar er svo aðgerðaáætlun (Action Plan for the Vision).  

Eftirfylgni og endurskoðun
Samstarfsnefndin samþykkti viðmið til að meta framvindu skv. stjórnunaráætluninni og ástand þjóðgarðsins. 
Stjórnunaráætlunina á að yfirfara og endurskoða árlega. 
Fylgst er með hvernig gengur að framkvæma það sem hún segir til um, í samræmi við markmið hennar. Þá eru jafnframt gerðar lagfæringar eða breytingar til aðlögunar að aðstæðum og þróun mála, eftir atvikum.  
Starfsmenn þjóðgarðsins gera grein fyrir framvindunni og settar eru fram árlegar framvinduskýrslur. Auk þess er unnin sérstök skýrsla um ástand þjóðgarðsins (A State of the National Park’ report) en hana á að vinna reglulega. 
Sérstök undirnefnd samstarfsnefndarinnar sér um hina formlegu yfirferð og eftirfylgni. 
Stjórn þjóðgarðsins skal endurskoða stjórnunaráætlun sína a.m.k. á fimm ára fresti.