Erlend dæmi‎ > ‎

Vanoise - Frakklandi


Um þjóðgarðinn
La Vanoise þjóðgarðurinn er elstur níu þjóðgarða Frakka, stofnaður árið 1963. 
La Vanoise er í suðurhluta Frakklands, í Savoie héraðinu í frönsku Ölpunum, milli Tarentaise og Maurienne dalanna. 
Hann liggur að Gran Paradiso þjóðgarðinum á Ítalíu, rétt við ítölsku landamærin. 
Í dag (2010-2011) búa á nærsvæði þjóðgarðsins um 37.000 íbúar í 29 sveitarfélögum. 

Hér er víða vísað í vef þjóðgarðsins. 
Athugið að með Google Translate má þýða texta á vef eins og þessum, úr frönsku yfir á t.d. ensku, eða jafnvel íslensku. 
Þó ber að hafa fyrirvara á lipurleika þýðingarinnar, einkum ef þýtt er á íslensku.                             

Hvati að stofnun 
Hvati að stofnun þjóðgarðsins var tvíþættur. 
Annars vegar hugmyndir um að skilgreina verndar-svæði fyrir fjallageitina frægu, Ibex, en við stofnun  þjóðgarðsins var talið að einungis um 50 geitur væru til á svæðinu. Í dag eru þær taldar vera um 2600 talsins.
Hins vegar gengu hugmyndir út á að varðveita einstaka náttúrufegurð Alpanna og sérstöðu fjallaþorpanna, með því að styrkja og efla byggðina. 
Í aðdraganda stofnunar þjóðgarðsins voru hugmyndir í þá átt að flétta saman þetta tvennt og þjóna báðum markmiðunum og var garðurinn skipulagður með það í huga, sbr. svæðaskiptinguna - sjá neðar. 
Mynd að ofan: 
Ibex - fjallageit.  

Sérstaða þjóðgarðsins
La Vanoise er þekktur fyrir einstaka náttúru, mikilfenglegt Alpalandslagið og litlu Alpaþorpin sem skapa alveg sérstaka stemningu. 
Ibex - fjallageitin, er einkenni þjóðgarðsins, en þar er líka að finna um 6000 gemsur eða chamois, sem eru smávaxnar antílópur. 
Skráðar eru 1200 tegundir jurta í þjóðgarðinum og eru 107 þeirra verndaðar. Um 125 fuglategundir gera sér hreiður í þjóðgarðinum.
Svæðið er þekkt fyrir að vera ein helsta skíðaparadís í heimi og fyrir einstaka osta. 

Svæðaskipting 
Þjóðgarðurinn skiptist í kjarnasvæði verndar, sem Frakkar kalla í dag hjartað (Cœur du Parc) en þar gildir mun strangari vernd. Hjartað þekur um 53.500 hektara lands (sjá dökkgráa svæðið á myndinni fyrir neðan).  
Umhverfis hjartað er svo kragi (e. buffer, eða Aire optimale d’adhésion du Parc) sem þekur um 146.500 hektara lands 
og nær yfir 29 sveitarfélög, eins og áður sagði (kraginn eða nærsvæðið er ljósgráa svæðið á myndinni hér fyrir neðan). 

Svæðaskipting í Vanoise.
Mynd: www.parcnational-vanoise.fr/

Þjóðgarðsstjórnun og umsjón er skipt niður á sex svæði, sem eru Secteur Pralognan, Secteur Bourg St Maurice og Secteur Val d'Isère, öll í Tarentaise-dalnum og Secteur de Modane, Secteur Bonneval og Secteur Termignon, öll í Maurienne-dalnum. 
Auk þess eru höfuðstöðvar, Le siège, þar sem tæknimál eru höndluð, kortagerð, samskipti og fleira. 

Atvinnulíf og framleiðsla 
Nærsvæði þjóðgarðsins byggir á sterkri hefð fyrir vetrarferða-mennsku, ekki síst er þar mikil skíðaparadís. Um 520 skíðalyftur eru taldar á svæðinu, einkum í Tarentaise, en einnig í Maurienne. 

Landbúnaður er rótgróinn á svæðinu og ummerki hans, t.d. vínekrur og grösugar hlíðar með jórtrandi kúm, eru hluti af landslagi og sérstöðu svæðisins, bæði í hjarta og á nærsvæðunum. 
Svæðið er þekkt fyrir langa hefð í ostagerð og ein þekktasta framleiðsluvara svæðisins er hinn frægi Beaufort-ostur, sem framleiddur er úr kúamjólk Tarine kúakynsins. Sjálft Savoie héraðið er einnig þekkt fyrir góð vín, ekki síst hvítvín, sem er að mestu neytt á víðfeðmum skíðasvæðum héraðsins. 

Ströng ákvæði gilda um starfsemi í hjarta Vanoise, eins og annarra franskra þjóðgarða. Sækja þarf um leyfi fyrir framkvæmdum og starfsemi. Hvert tilvik er metið, með hliðsjón af þjóðgarðalögum, tilskipun um þjóðgarðinn, reglugerðum og skipulagsskilmálum svæðisins. 

Þjóðgarðurinn tekur þátt í stuðningi við landbúnað á svæðinu,
í því skyni að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni og gæðum landslags. Stuðningurinn er hluti af landbúnaðarstyrkjum eða prógrammi á landsvísu eða innan Evrópusambandsins, s.s. til fjárfestingar, náms, framleiðslu og byggðaþróunar. 
Stuðningur þjóðgarðsins lýtur m.a. að því að vinna með bændum að rannsóknum og greiningum á beitilöndum, styrkja fjárfestingu í búnaði sem stuðlar að aukinni umhverfisvernd, styðja umbætur og aukin gæði í byggingum og aðstöðusköpun og til að greiða fyrir því að afskekkt svæði verði tekin aftur til landbúnaðarnota, svo nokkuð sé nefnt.  
Umhverfisstarf þjóðgarðsins 
Öflugt umhverfisstarf er unnið í þjóðgarðinum og er það hluti af stefnu hans, sjá hér
Þjóðgarðurinn fylgir viðmiðum ríkisins um fyrirmyndarstarf að sjálfbærri þróun (l'instruction du Premier Ministre du 3 décembre 2008 sur l'exemplarité de l'Etat au regard du développement durable) sem leggur m.a. áherslu á umhverfisvæn innkaup og stjórnun (t.d. orkunotkun, sorpmál o.fl.) sem og samfélagslega ábyrgð.   

Miðlun sérstöðu og upplýsinga 
Þjóðgarðurinn hefur í samvinnu við félagasamtök og sveitarfélög safnað saman miklu magni af gagnlegum upplýsingum fyrir almenning. Þessum upplýsingum er miðlað áfram af ferðamálasamtökum (tourist board) í Maurienne og Tarentaise-dölunum, en einnig er góð framsetning og miðlun upplýsinga áberandi á vef þjóðgarðsins sjálfs. 

Hér er slóð á vef Vanoise þjóðgarðsins sem reyndar hefur verið vísað til víða hér að ofan. 

Á vefnum má finna haldgóðar upplýsingar um ýmis atriði hins daglega lífs í þjóðgarðinum, atriði sem gagnast þeim sem skipuleggja heimsókn og dvöl í þjóðgarðinum, útivist, afþreyingu, mat og þjónustu. Þar að auki eru afar góðar upplýsingar og tenglar á efni, um sérstöðu, þróun, stjórnun og starfsemi þjóðgarðsins. Slíkt auðveldar lesandanum yfirsýn og getur aukið jákvæð áhrif þjóðgarðsins. 

Þjóðgarðurinn er einnig á Facebook. Smellið hér


Vefur þjóðgarðsins.  Mynd: 

Á vefnum er t.d. að finna gagnvirk kort af garðinum, sem sýnir mismunandi lög eða tegundir upplýsinga.

Benda má á síður um hvernig hægt sé að skoða þjóðgarðinn, um sýningar og viðburði, um staðsetningu og ferðaleiðir, hvernig eigi að  komast í þjóðgarðinn og fleira í þeim dúr. Upplýsingar eru fyrir gesti um gistingu og aðstöðu, og þá höfðað til ólíkra ferðamáta. 
Einnig er þar að finna leiðbeiningar um leiðsögn og gönguferðir og margvíslega aðra viðburði, m.a. viðburðadagatal. Hægt er að njóta fastra viðburða, s.s. tónlistarflutnings undir myndasýningu um arfleifð þjóðgarðsins og svæðisins.  
Einnig er bent á hvernig megi fræðast frekar um þjóðgarðinn, bent á upplýsingamiðstöðvar, bæði á vegum þjóðgarðsins og ferðamálaráða eða sveitarfélaga á svæðinu og bent á viðburði og þjónustu á vegum annarra aðila á svæðinu
Bent er á að þjóðgarðurinn sé opið svæði, aðgengilegt almenningi, en ekki lokaður skemmtigarður, með tilgreindum opnunartímum og aðgangseyri. Gestum er bent á að skilja ekki eftir sig slóð, með rusli eða öðrum verksummerkjum. 

Aðgengilegur þjóðgarður 
Á vefnum er líka fjallað um aðgengi fyrir fatlaða og fólk með takmarkanir. Áhersla er þar á þrennt: vitund og þjálfun starfsmanna, aðgengileika svæðisins sjálfs og aðgang að upplýsingum á vegum þjóðgarðsins. 


Ljósmyndabanki - gagnabanki
Á vef þjóðgarðsins hefur verið komið upp gagnabanka með ljósmyndum sem teknar eru á tilteknum stöðum í þjóðgarðinum. Um er að ræða bæði gamlar ljósmyndir, sem teknar hafa verið á svæðinu, allt frá 19. öld, en einnig er þar að finna afrakstur af skipulagðri myndatöku hin síðustu ár, með sjónarhorfni frá ákveðnum stöðum. Markmiðið er að fylgjast með þróun og breytingum landslags á svæðinu. 
Hér er kort þar sem finna má þá staði sem myndaðir hafa verið og smella á einstaka staði til að nálgast frekari upplýsingar og skoða ljósmyndirnar sjálfar. 

Það sem betur mætti fara á vef 
Ef það er eitthvað sem betur mætti fara á vef þjóðgarðsins þá er það einkum að gera aðgengilegri upplýsingar um yfirstjórn og stjórnendur þjóðgarðsins og það hvert eigi að snúa sér vilji maður hafa samband, senda tölvupóst eða hringja í þjóðgarðinn. 
Nokkuð þarf að hafa fyrir því að fiska þessar upplýsingar upp af vefnum. 
Auk þess væri kostur ef vefurinn væri settur fram á ensku líka eða öðrum tungumálum en frönsku, en með hjálp Google Translate er hins vegar orðið lítið mál að fá fram þolanlega þýðingu franska textans, yfir á ensku. 

Útgáfa
Þjóðgarðurinn hefur gefið út margvíslegt efni, alls konar bækur, kort og yfirlit yfir gönguleiðir, DVD-mynddiska, póstkort, o.fl. 
Á vef þjóðgarðsins eru til sölu bækur um náttúruarfleifð sveitarfélaganna á svæðinu
og kosta litlar 15 evrur. Þar er gefið yfirlit um landslag, gróður 
og dýralíf, um náttúrulegt umhverfi og margvísleg dæmi tekin. 
Í ársskýrslum þjóðgarðsins má finna upplýsingar um þá útgáfu sem þjóðgarðurinn hefur staðið að, ýmist á eigin vegum eða með öðrum. Þar var t.d. að finna upplýsingar um að þjóðgarðurinn hefði staðið að gerð sjónvarpsþátta og fræðsluefnis sem ætlað var íbúum svæðisins og gestum. 
Þjóðgarðurinn rekur einnig bókasafn með bókum og vísindagreinum, m.a. um stjórnun, þróun og starfsemi þjóðgarðsins. 
 
Tölur og upplýsingar 
Hér má finna ýmsar lykiltölur um svæðið, þjónustu og gesti.