Sérstaða og starfsemi

Starfsemi sem byggir á sérstöðu svæðisins 
Vetrarferðamennska er aðall svæðisins. Þarna eru miklar skíðaparadísir og gert er út á einstakt landslag svæðisins, Alpamenninguna, mat héraðsins og vínframleiðslu á svæðinu. Samstarf virðist öflugt innan héraða/sýslna við kynningu og sameiginlega framsetningu á gæðum og þjónustu svæða og héraða. 
Hér er reynt að gera grein fyrir nokkrum dæmum um slíka framsetningu, þar sem byggt er á sérstöðu svæðisins og þeirri ímynd svæðisins komið á framfæri. 

Ferðaþjónusta 
Á vef Savoie og Haute-Savoie sýslna er að finna ýmis góð dæmi um hvernig ferðaþjónusta og aðrir aðilar á svæðinu byggja á sérstöðu svæðisins, halda henni á lofti og byggja á sterkri, sameiginlegri ímynd. 
Savoie og Haute-Savoie sýslurnar sameinast um að kynna einn ferðamannastað undir heitinu Savoie Mont Blanc, bæði innanlands og á alþjóðlegum ferðaþjónustumörkuðum. Þarna er í raun um að ræða tvö Alpasvæði sem ákveða að búa til almennt „brand" fyrir margskipt svæði sem einn áfangastað. Öll markaðssetning og kynning er í höndum sameinaðra Ferðaþjónustusamtaka, með skrifstofur í báðum sýslum. 

Á vefnum er einkum tvennt í forgrunni; annars vegar skíðaferðamennskan, vetraríþróttir og tengd afþreying, hins vegar matur og vín svæðisins. Ítarlegar upplýsingar er að finna um hvorutveggja, auk þess sem upplýsingar eru um aðra afþreyingu og gistiaðstöðu.
Að sjálfsögðu eru settar fram allar upplýsingar um góðar skíðabrekkur og reynt að höfða til allra hópa, byrjenda jafnt sem lengra kominna. Boðið er upp á brautir fyrir meistarana, svæði fyrir frjálsari leik í „snowparks" og sérstök svæði fyrir „snowkite and speed-riding". Boðið er upp á hundasleðaferðir og -keppnir og ýmiss fróðleikur settur fram um hundana og stjórnendur þeirra. Fleira mætti nefna, en sjón er sögu ríkari; vefurinn er settur fram á ensku, frönsku og ítölsku og er aðgengilegur, þó þar hefði á einstaka stað mátt finna upplýsingar um úrelta viðburði sem þörfnuðust uppfærslu. 

Matargerð og vínrækt 
Matur og vín fær góða umfjöllun á vef Savoie Mont Blanc. Kynnt er sérstaða svæðisins og löng hefð í matargerð, ostagerð og víngerð. Kynntir eru ítarlega helstu konungar ostanna, vínræktarhéruðin og framleiðendurnir, sem sagðir eru byggja á aldagömlum hefðum. 
Helstu stjörnum svæðisins í matargerðarlist er hampað, sbr. þessa umfjöllun um stjörnukokka, 28 matreiðslumeistara á svæðinu með sínar 39 Michelin-stjörnur. 

Gefnar eru uppskriftir m.a. af fiski sem veiðist á svæðinu og er sérstökum gæðum þeirra tegunda lýst. Að sjálfsögðu er svo í sömu andránni nefnt hve vín svæðisins fari vel með fiskréttunum.
 
Grípum niður í slíka lýsingu á vefnum. Gæti sambærileg lýsing ekki átt við um ár og vötn tiltekinna svæða á Íslandi? 

Savoie Mont Blanc’s rivers are 
full of trout and its lakes are home to many species of fish, 
including members of the salmon family, such as lavaret and arctic char, and coarse fish, such as pike or perch.This wide range has inspired a large number of original 
and inventive dishes that are superbly accompanied by
Mynd: http://www.savoie-mont-blanc.com            a delicious local white wine 

Einnig er að finna lýsingu á berjum sem vaxa á svæðinu og hunangi sem þaðan er upprunnið og gert út á að það sé hluti af því sem einkenni svæðið. 

Fjallað er um vörumerkin eða merkingarnar L'AOC (Appellation d'Origine Controlée) sem var sett á stofn til að kynna og standa vörð um einstakar framleiðsluaðferðir og þekkingu framleiðanda og vísa í náttúru viðkomandi framleiðslusvæðis.  
Einnig um AOP (Appellation d'Origine Protégée) og IGP (Indication Géographique Protégée) sem stafa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. 
Boðið er upp á vínsmökkunar og -fræðsluferðir um Savoie, þar sem fjöldi framleiðenda er heimsóttur, en um ferðina segir m.a. (enska kynningin): 

Follow the Savoie wine route and meet the many wine-producers and merchants who will be delighted to show you around their wine cellars and cooperatives.
You'll learn all about this mountain region's wine production, 
the development of which owes much to the enthusiasm of local wine-growers who are constantly striving to improve their techniques and the quality of their wines. 
... You'll be amazed by the natural and cultural heritage of the route, which will also allow you to sample other local specialities, such as freshwater fish and mountain charcuterie, not forgetting the famous cheeses which are the perfect accompaniment to the local wine.


Vínin í Savoie. Mynd: http://mcduffwine.blogspot.com

Á vefnum France Guide sem er opinber vefur Ferðamálaskrifstofu Frakklands er að finna upptalningu á mat sem er einkennandi eða sérstakur fyrir einstök héruð í Frakklandi. Fyrir Rhone-Alpes héraðið eru m.a. tilgreindir ostar og vín svæðisins, einnig  ýmsir réttir og framleiðsla af svæðinu sjálfu. Þar er einnig að finna upplýsingar um ýmislegt annað sem finna má á svæðinu, s.s. þjóðgarða og svæðisgarða, loftslag og veðurfar, merka staði og fallegar borgir og bæi

Meira um vínin í Savoie
Frönsku vínin eru auðvitað heimsfræg og ein þekktasta framleiðsluvara Frakka. Savoie-hérað sem er þekkt vínræktarhérað er kynnt sameiginlega af framleiðendum og tengdum aðilum á sérstakri vefsíðu um vínin í Savoie þar sem finna má margvíslegar upplýsingar um sérstöðu héraðsins sem vínframleiðslusvæðis, um sögu vínræktar á svæðinu sem rakin er til tíma frá því fyrir fæðingu Krists, um hefðir og sérstöðu, um vínekrur á svæðinu, einstaka framleiðendur, um vínferðaþjónustu, mat og vín, og fleira. Hvatinn sem býr að baki sameiginlegri kynningu og framsetningu efnis og ímyndar, er að líkindum svipaður og lýst var hér að ofan fyrir Savoie-Mont Blanc svæðið. 


Landbúnaður og fleira 
Á vefsíðu Haute Maurienne, sem er í Savoie, og að mestu á svæði þjóðgarðsins  er að finna ýmsar upplýsingar um svæðið. 
Á svæðinu eru sjö þorp, m.a. þorpin Bramans, Sollières-Sardières og Termignon. Saman hafa þau þrjú sett fram upplýsingar á vefsíðu um einkenni svæðisins, þjónustu sem þar er að fá og ýmsan annan fróðleik. 
Þar má t.d. finna upplýsingar um ýmsa arfleifð og menningu svæðisins, hefðir, listsköpun og atvinnu, t.d. landbúnað
Upplýsingar um tjaldsvæði gefa til kynna að á svæðinu sé óviðjafnanlegt útsýni, stutt í verslanir og sérvöru, einkum matvöru og framleiðslu af svæðinu, s.s. vín og osta. 

Á sameiginlegum vef 40 mjólkurframleiðenda í Haute-Maurienne er að finna upplýsingar um ostagerð, framleiðendur og um 56 bændur (local farmers), sem standa saman að sameiginlegu sölukerfi osta og annarrar mjólkurframleiðslu, auk einstakra annarra vörutegunda, s.s. sultu og hunangs sem þar er framleitt. Framleiðslusvæðið nær yfir 7-8 sveitarfélög/þorp í Beaufortain-, Tarentaise- og Maurienne-dölunum og hluta af Val d'Arly, eða meira en 2/3 hluta Savoie. 
Framleiðsluaðferðum einstakra osta er lýst á vefnum, t.d. Beaufort og Bleu de Bonneval sur Arc
Aðra osta má nefna eins og Tomme Termignon, geitaost, ost úr ærmjólk og fleira.  
Gestum er boðið að koma og smakka framleiðsluna á nokkrum stöðum, jafnvel er sums staðar hægt að sjá hvernig ostarnir eru framleiddir. 
Myndir: www.cooplaitierelanslebourg.com

Fram kemur á vefnum að framleiddir eru árlega 3.807.000 lítrar af kúamjólk á svæðinu sem fara í Beaufort-ostagerðina. 
Um 180.000 lítrar fara í Bleu de Bonneval sur Arc. 
Um þessa mjólkurframleiðslu sjá 1035 kýr. 
Beaufort osturinn er svo frægur að hann á sína eigin vefsíðu
Þar er að finna lýsingar á hráefninu, á kúakyninu, á framleiðslu-aðferðum og fleiru. 

Vellíðunarþjónusta
Á vef Savoie-Mont Blanc sem áður var lýst, er að auki sett fram, e.t.v. sem þriðji vinkillinn í kynningunni á Savoie Mont Blanc, ýmis vellíðunarþjónusta og spa"
Kynntir eru spa-staðir, heilsulindir, gufuböð og sundlaugar og tekið fram að þetta tvennt fari afskaplega vel saman; slökun og dekur í lok hressilegs dags í skíðabrekkunum. 
Í La Rosiere er einnig vísað á spa og heilsulindir, og á sameiginlegum vef CHG nokkurra gististaða og heilsulinda má bóka gistingu og velja sér heilsulind eða spa-stað á svæðinu. 

Útivist og vatnasport
Í fjölmörgum bæjum á svæðinu er löng hefð fyrir margs konar þjónustu við þá sem stunda útivist af einhverju tagi. Gönguferðir með leiðsögn, þjónusta við skíðamenn, skíða- og brettakennsla, fjallahjólaleiga og margt fleira mætti nefna til dæmis um slíkt.
Í bænum Bourg-Saint-Maurice í Tarentaise-dalnum hefur til dæmis verið byggð upp góð aðstaða fyrir vatnasport, einkum flúðasiglingar, í kringum ána Isère sem þykir kjörin til slíks. 
Þarna hafa verið haldnar alþjóðlegar keppnir, m.a. heimsmeistarakeppnir í flúðasiglingum á kajökum og fleiru. Svæðið þykir ægifagurt en erfitt viðureignar. 

Aðstaða fyrir vatnasport í Bourg-Saint-Maurice. 

Sendiherrar þjóðgarðsins, leiðsögn og ferðir 
Hér má nefna að Vanoise þjóðgarðurinn býður heimamönnum sem gerast vilja leiðsögumenn í þjóðgarðinum upp á nám og viðurkenningu sem Park Ambassadors (Ambassadeurs du Parc) eða sendiherrar þjóðgarðsins. Um er að ræða leiðsögumannanám með áherslu á staðarleiðsögn og umhverfismál, sem fellur að stefnu þjóðgarðsins. Sendiherrarnir gera samning við þjóðgarðinn og undirgangast ákveðnar skyldur og mega á móti auglýsa sig sem sendiherra þjóðgarðsins, með vísan til þess sem þar býr að baki og merki þjóðgarðsins. M.a. er haldið úti sérstökum þemagönguferðum í þjóðgarðinum, þar sem sendiherrarnir koma við sögu sem leiðsögumenn. 

Á vef þjóðgarðsins (skoðað í apríl 2011) segir að 30 sendiherrar hafi nú verið viðurkenndir og hægt er að nálgast upplýsingar um þá á lista sem þjóðgarðurinn birtir. 

Hér er svo af handahófi tekið dæmi um einn slíkan sendiherra, Françoise Gimenez, sem heldur úti eigin vefsíðu ásamt með öðrum fjallaleiðsögumanni á svæðinu. Hún segist vera fjallaleiðsögumaður, með sérstök réttindi til að leiðsegja fólki í hjólastólum, skíðakennari og sérfræðingur í göngu á snjóþrúgum (snowshoeing) í Pralognan yfir vetrartímann. 
Boðið er upp á ferðir og leiðsögn sem hæfa hverri árstíð, skíðaferðir á vetrum, aðrar ferðir og almenna leiðsögn til að uppgötva náttúru og dýralíf í þjóðgarðinum, t.d. að vori og sumri. 
Hægt er að finna myndir af viðburðum sem þau standa fyrir, t.d. þessari skíðaferð í apríl 2011. 

Af vef þjóðgarðssendiherrans Françoise Gimenez. 

La Rosiere er fjallaþorp með margvíslegri þjónustu (resort) í hjarta Haute-Tarantaise, í 1850 m.y.s. með glæsilegu útsýni 
og byggingum í hefðbundnum fjallastíl svæðisins. 
Á opinberum vef er að finna tilboð til gesta um staðarleiðsögn, söguferðir, náttúruskoðun og listmálunarnámskeið. 
Það síðastnefnda byggist á því að farið er með nemendur í ferðir um svæðið og reynt að fanga hið fallega landslag, 
hefðbundin lítil fjallaþorp, gróður og aðra fegurð fjallanna á striga. 
Söguleiðsögumenn bíða sömuleiðis eftir að fá að deila þekkingu sinni á sögu svæðisins með gestum í margvíslega samsettum ferðum, þar sem sjónum er t.d. beint að fjallabúskap 
og framleiðslu svæðisins, náttúru og arkitektúr, söfnum á svæðinu, þjóðgarðinum og gæðum hans, og fleiru. 
Edelweiss, blómið fagra 
Ýmsar tegundir af göngu- og fjallaferðum eru í boði undir leiðsögn staðkunnugra leiðsögumanna, allt frá stuttum fjölskylduferðum til strangra, margra daga ferða um Alpana. 
Góð kort eru í boði og vel merktar gönguleiðir, að sögn. 
Fjallageitur, fjallaþorp, Alpalandslag, ostar og blómið Edelweiss eru nefnd til sögunnar og trekkja án efa glaða göngumenn og aðra ferðamenn sem vilja upplifa einkenni og staðaranda svæðisins.