Stefna og stjórnun

Þróun franskra þjóðgarða, breytt löggjöf
Lagasetning Frakka um þjóðgarða árið 1960 tók ekki tillit til byggðasjónarmiða í anda frumkvöðla La Vanoise, sem ætluðu þjóðgarðinum raunverulega að verða til eflingar byggðar og mannlífs í fámennum fjallaþorpum Alpanna.   
Þó þótti það nýlunda í annars miðstýrðri franskri stjórnsýslu, að heimamenn fengu sæti í stjórn þjóðgarðsins. 
Sem mótvægi eða viðbrögð við vonbrigðum margra vegna þess að nýja löggjöfin þótti ekki endurspegla væntingar og sjónarmið um eflingu byggðar, þá stofnuðu heimamenn sérstakt Vinafélag þjóðgarðsins, sem enn er starfandi. 

Merking á útmörkum hjarta þjóðgarðsins í Vanoise. 

Upp úr 1990 fór að losna um ýmsar hömlur. Ferskir vindar tóku að blása og aukin áhersla var lögð á samstarf með íbúum svæðisins og á hlutverk þjóðgarðsins í byggðaþróun á svæðinu. 

Samt fannst mönnum ekki nóg að gert og árið 2006 settu Frakkar ný lög um þjóðgarða. Lagabreytingarnar eiga m.a. rætur í gagnmerkri skýrslu þingnefndar sem Jean-Pierre Giran þingmaður á franska þinginu var í forsvari fyrir. Í skýrslunni var fjallað um framtíð, sérstöðu og mikilvægi franskra þjóðgarða og talin brýn nauðsyn að aðlaga stefnu um þjóðgarða að breyttum aðstæðum og viðhorfum. 
Lagt var mat á reynsluna og talið að vel hefði tekist til með verndun kjarnasvæðanna; markmið með verndun hinnar einstæðu arfleifðar svæðisins hefðu klárlega náðst og meðal annars skilað sér í auknum líffræðilegum fjölbreytileika á svæðinu. Hins vegar hefði ekki tekist til sem skyldi með stuðning og tengsl við kragasvæðin, þróunaráætlanir hefðu verið virtar að vettugi og samstarf ekki verið skilvirkt. Lagaleg óvissa væri um áhrif og afskipti þjóðgarðsstjórnenda inni á nærsvæðunum. Styrkir sem ríkið hefði veitt á svæðin hefðu verið ómarkvissir og í vaxandi mæli litið á þá sem bætur fyrir hömlur sem lagðar hefðu verið á starfsemi á kjarnasvæðunum. 
Bent var á að nauðsynlegt væri að efla lýðræðið í stjórnun, starfsemi og áhrifum garðsins, og styrkja tengsl og samstöðu með nærsvæðunum. Áréttað var að vel hefði tekist til með samvinnu við nærsvæði, t.d.hjá Cevennes og Ecrins þjóðgörðunum og hjá svæðisgörðum (nature parks), á grunni samninga um umhverfisstjórnun og sjálfbæra þróun (charte de l'environnement et du développement durable). 

Hin nýju lög fólu í sér áréttingu á tilgangi með verndun í þjóðgörðum og endurskoðun á grunnstoðum þjóðgarðanna. 
Tvær veigamiklar breytingar má til dæmis nefna. Annars vegar er kveðið á um endurskoðun tilskipunar eða stofnsamþykkta 
allra þjóðgarðanna og átti því verki að vera lokið 2009. Hins vegar er gert ráð fyrir víðtæku samráði við hagsmunaaðila á nærsvæði þjóðgarðs og í kjölfarið samningum við sveitarfélögin á svæðinu, á grunni sérstaks sáttmála um verndun og viðhald náttúru- og menningararfs og sjálfbæra þróun (une charte de protection, de mise en valeur des patrimoines et de développement durable). 
Hver þjóðgarður vinnur sinn eigin þjóðgarðssáttmála (hér eftir vísað í sem charter), sem verður leiðandi skjal í þessum efnum, og semur við sveitarfélögin á nærsvæðinu. Þeirri vinnu á að ljúka 2011. 

Nýju lögin ganga út frá svipaðri svæðaskiptingu þjóðgarða og áður þó staða svæða virðist breytast nokkuð. Svæði sem áður var skilgreint sem kjarnasvæði eða miðsvæði þjóðgarðsins, „Zone centrale du Parc", er nú skilgreint sem hjarta garðsins „Cœur du Parc". Ennþá gildir þar strangari vernd, en um nokkra tilslökun virðist þó vera að ræða, m.a. hvað varðar leyfi til að stunda atvinnustarfsemi þar. 

Stjórnun

Þjóðgarðastofnun
Umsjón franskra þjóðgarða er hjá sjálfstæðri þjóðgarðastofnun, Parcs Nationaux de France, sem er opinber stofnun 
sett á laggirnar á grunni löggjafarinnar frá 2006. 
Markmið hennar er að efla tengsl milli þjóðgarðanna níu, styrkja sameiginlega menningu þeirra, kynna þá og koma á framfæri 
bæði innanlands og utan, og stuðla að aukinni fagmennsku í stjórnun þeirra. 

Staðbundin stjórn og nærsvæði 
Hver þjóðgarður hefur svo sína eigin yfirstjórn. 
Stjórnunarleg markmið byggjast m.a. á viðmiðum um fjölbreytni, sérstöðu (character) og eflingu sjálfbærrar þróunar.

Eldri löggjöf var fremur fáorð um stöðu nærsvæðanna og tengsl þeirra við kjarnasvæðin. 
Úr því er bætt með nýju lögunum frá 2006 og staða nærsvæðanna og stefna þar um er skýrð og treyst. Þau teljast nú formlega hluti af þjóðgarðinum. 

Póstkort útgefið af Vanoise þjóðgarðinum. 

Í staðinn fyrir jaðarsvæðisskilgreininguna, „Zone périphérique", heitir kraginn eða svæðið umhverfis hjartað nú „Aire optimale d’adhésion du Parc".  Með því - og fleiri ákvæðum laganna - er lögð áhersla á nánari tengsl kjarnasvæðisins og nærsvæða. Mörkin þar á milli virðast því vera að dofna, en það byggir þó á samningsgerð við sveitarfélögin á svæðinu. Sveitarfélögin geta samið um aðild og að verða hluti af þjóðgarðinum. Þau fá í staðinn stuðning þjóðgarðsins við að framfylgja sameiginlegum áætlunum um sjálfbæra þróun. Aðildin er þó valkvæð, eða eins og Frakkarnir segja: „Reglur í hjartanu, samningur í kraganum“.
Nýja löggjöfin, sem samþykkt var samhljóða af franska þinginu, fól einnig í sér að stjórnun þjóðgarða var styrkt. 
Kveðið er á um aukna aðkomu heimamanna, sem ásamt kjörnum fulltrúum eiga nú meirihluta sæta í stjórn. Stjórnin hlutast til um eða tekur þátt í ráðningu framkvæmdastjóra. 
Íbúaráð var einnig sett á laggirnar, m.a. sem nokkurs konar mótvægi við starfandi vísindaráð sem starfað hefur og er stjórn þjóðgarðsins til ráðgjafar.  

Stefna þjóðgarðsins 
Í lögunum frá apríl 2006 hefur löggjafinn skilgreint hlutverk frönsku þjóðgarðanna (mission). 
Meginhlutverkin felast í:
 • náttúruvernd; að vernda tegundir og vistkerfi, einkum í hjarta þjóðgarðsins
 • öflun þekkingar, m.a. með rannsóknum og vöktun  
 • að taka á móti gestummiðla og auka þekkingu fólks og stuðla að fræðslu um umhverfismál, t.d. með útgáfustarfsemi og samskiptum við skóla.  
 • þátttöku í byggðaþróun á svæðinu og sjálfbærniþróun
Á grunni þessara hlutverka hafa verið skilgreind lykilmarkmið, verkefni og aðgerðir, sjá m.a. hér.

Þróunaráætlun var gerð fyrir árin 2003-2009 og var hún brotin niður á hvert hinna sex svæða þjóðgarðsins, sem áður var lýst. Henni var ætlað að útfæra í framkvæmd hlutverk þjóðgarðsins. Hér var í raun um að ræða stjórnunaráætlun sem fjallaði annars vegar um almennar aðgerðir sem hafa áhrif á allan þjóðgarðinn, en hins vegar staðbundnar aðgerðir á svæðunum og í tilteknum sveitarfélögum. 
Eftir að stjórn þjóðgarðsins hafði samþykkt áætlunina var hún staðfest af viðkomandi fagráðherra. 

Hver þjóðgarður hefur einnig gert samning um markmið og framkvæmd stefnunnar við fagráðuneytið, ráðuneyti umhverfismála/vistfræði (le Ministère de l'Écologie, sem er hluti af samsettu ráðuneyti umhverfismála og sjálfbærni, samgangna og húsnæðismála - le Ministère de l'Ecologie, du Développement durable, des Transports et du Logement). 
Ríkið hefur skilgreint 3 forgangsatriði í samningum við þjóðgarðana. Þau eru: 
 • Verndun líffræðilegs fjölbreytileika
 • Þörf á auknum gæðum og góðum fyrirmyndum í auðlindastjórnun, auk þess 
 • Góð stjórnun, sem m.a. miðar að skilvirkri starfsemi stofnana og sterkari tengslum við heimamenn 
Vanoise þjóðgarður gerði samning við ríkið og skilgreindi markmið sín fyrir árin 2007-2009 á grunni þessara forgangsatriða. Þar eru skilgreind þau aðföng sem þjóðgarðurinn hefur úr að spila, bæði í formi mannauðs og fjárframlaga, auk þess sem viðmið (indicators) eru skilgreind til að mæla hversu vel takist til við að ná markmiðunum. Einhverjar breytingar hafa verið gerðar á samningnum en í framtíðinni (frá 2011) mun þjóðgarðssáttmálinn (Charter) leysa þennan samning af hólmi. 

Eftirfylgd er markviss og árlega gefur framkvæmdastjóri þjóðgarðsins út skýrslu um framkvæmd stefnunnar og starfsemi þjóðgarðsins. Í ársskýrslunni er gerð grein fyrir stjórnunarlegum aðgerðum, framkvæmdum ársins, útgáfu, gestafjölda og fleiru. 
Það kemur síðan í hlut stjórnarinnar að yfirfara skýrsluna og meta árangur. 
Nánar um þjóðgarðssáttmálann 
Framtíðarskipan og stjórnun þjóðgarðsins mun eins og áður sagði byggjast á grunni þjóðgarðssáttmálans (Charter) sem lögin frá 2006 mæla fyrir um. Sáttmálinn er samvinnuverkefni á héraðsvísu, milli ríkis og sveitarfélaga sem tekur gildi eftir ítarlegt samráðsferli við hagsmunaaðila á svæðinu. Tvennt bjó einkum að baki ákvæðum um þjóðgarðssáttmála (Charter) í lögunum frá 2006, annars vegar að styrkja „eignarhald" heimamanna á þjóðgarðinum, og hins vegar að skýra stöðu nærsvæða þjóðgarðsins. 

Við undirbúning þjóðgarðssáttmálans útbjuggu bæjarstjórar sveitarfélaganna á svæðinu yfirlýsingu um væntingar kjörinna fulltrúa til starfseminnar á grundvelli hins nýja sáttmála. Þar komu fram óskir sveitarstjórnarmanna um að sáttmálinn fæli í sér jafnvægi milli annars vegar verndunar á náttúru- og menningararfi svæðisins og hins vegar þróunar á svæðinu, auk þess sem þeir töldu brýna nauðsyn á skoðanaskiptum og samráði allra aðila. 

Í tengslum við þjóðgarðssáttmálann var einnig unnin skilgreining á sérstöðu eða einkennum Vanoise þjóðgarðsins, með áherslu á svæðið sem tilheyrir hjarta garðsins. Þar er byggt bæði á áþreifanlegum og óáþreifanlegum atriðum og m.a. leitað fanga í sögu þjóðgarðsins og þeirri sýn sem hvatamenn að stofnun hans höfðu, auk þess sem horft er fram í tímann. 
Ítarlega lýsingu á þessari sérstöðu svæðisins og einkennum þess er að finna í sérstöku skjali sem nálgast má frá þessari síðu.
Byrjað er á að lýsa sláandi náttúrufegurð Alpanna, mikilfengleik fjallseggja og tinda sem standa í röðum. 
Vikið er að því hve manneskjan virkar smá í samanburðinum við náttúruna og nauðsyn þess að bera virðingu fyrir náttúröflunum. 

Póstkort útgefið af Vanoise þjóðgarðinum. 

Lýst er andstæðum í náttúrulegu umhverfi, eins og snævi þöktum fjöllum og iðjagrænum hlíðum og dölum, og einnig minnst á að andstæður felist í hjartanu og nærsvæðum. Þó sé meira um vert að horfa til þess sem tengi svæðin og þau eigi sameiginlegt, heldur en þess sem aðgreini þau. Fjallað er um sérstöðu dýra og plantna á svæðinu og margt fleira. 

Í lok árs 2010 voru birt drög að þjóðgarðssáttmálanum sem byggðu á nærri 3ja ára samráðsferli með hagsmunaaðilum á svæðinu; kjörnum fulltrúum, aðilum úr atvinnulífi og félagasamtökum. Með samráðinu og gerð sáttmálans taka ólíkir hagsmunaaðilar höndum saman og skilgreina framtíðarsýn sem byggir á vernd þeirra náttúruauðlinda sem í þjóðgarðinum finnast. 
Í sáttmálanum er að finna sameiginlega framtíðarsýn aðila til næstu 15 ára, leiðarljós og markmið verndunar, viðhalds og sjálfbærrar þróunar þjóðgarðsins, þar sem gerður er greinarmunur á hjartanu og nærsvæðum. Sáttmálinn er meginstjórntækið og felur í sér opinbera stefnu þjóðgarðsins og samstarfsaðila, s.s. staðbundinna stjórnvalda, aðila úr atvinnulífi og félagasamtaka. 
Allar aðgerðir þjóðgarðsins sem opinberrar stofnunar hafa skírskotun í sáttmálann. 
Fjögur stefnumið þjóðgarðssáttmálans eru þessi: 
 • Að vernda ríka arfleifð héraðanna og tryggja að litið sé á svæðið allt sem eina vistfræðilega heild 
 • Að kynna svæði sem hafa má til viðmiðunar eða sem fyrirmynd þar sem farið er nýjar leiðir í að bregðast við breytingum - náttúrulegum, efnahagslegum og þjóðfélagslegum
 • Að efla ímynd Vanoise-þjóðgarðsins og deila þessu einstaka svæði með gestum 
 • Skipuleggja stjórnun svæða og hvetja til samstöðu um umhverfismál 
Þjóðgarðurinn sem stofnun, getur gert samninga við fleiri aðila en sveitarfélögin á nærsvæðinu um aðild eða gildi þjóðgarðssáttmálans, t.d. við aðila í atvinnulífi og félagasamtök. Í slíkum samningum er einnig hægt að semja um framkvæmd tiltekinna verkefna sem aðilar vilja framkvæma í sameiningu. 


Samvinna við sveitarfélög, hagsmunaaðila o.fl.
Þjóðgarðurinn hefur margvíslegt samstarf, m.a. um framkvæmd á stefnu þjóðgarðsins. 
Sveitarfélög á nærsvæði þjóðgarðsins eru lykilsamvinnuaðilar þjóðgarðsins. Á vef þjóðgarðsins má finna slóðir og upplýsingar fyrir þá sem vilja kynnast þessum sveitarfélögum betur. 
Mikil vinna hefur farið í samráð við hagsmunaaðila og gerð þjóðgarðssáttmálans með sveitarfélögum og fleirum á svæðinu, á allra síðustu misserum, eins og áður er sagt frá. 

Í nýlegri vinnu með hagsmunaaðilum á svæðinu er lögð áhersla á að efla:
 • Landbúnað (jarðrækt, hjarðlandbúnaður) 
 • Veiðar 
 • Fisflug 
 • Fjallamennsku og klifur 
 • Atvinnu og starfsemi í hjarta þjóðgarðsins 
Þjóðgarðurinn er aðili að margvíslegu tengslaneti og samstarfi, einkum varðandi náttúru og verndun. 

Til dæmis má nefna að þjóðgarðurinn á aðild  ATEN GIPsem eru opinber samtök, stofnuð 1997 til að þróa og kynna ýmsar  hagnýtar aðferðir við stjórnun verndaðra svæða, auk þess að stuðla að myndun tengsla og samstarfi. 
Aðild að þeim eiga fagráðuneyti, þjóðgarðastofnunin, samtök svæðisgarða, samband verndarsvæða og fleiri aðilar. 

Vanoise þjóðgarðurinn er aðili að Europarc Federationsambandi evrópskra verndarsvæða. 
Þjóðarðurinn er þar í hópi 440 meðlima, verndarsvæða (s.s. þjóðgarða), ríkisstofnana, frjálsra félagasamtaka og einkafyrirtækja í 36 löndum, sem fara með stjórn verndaðra svæða á landi eða á sjó, á afmörkuðum svæðum, s.s. skógar, ár og vötn,      
eða fara með málefni                         
menningararfs, 
sem ekki er eins þétt bundinn við tiltekin landsvæði. 
Samtökin hafa að markmiði að efla og bæta stjórnun og meðferð náttúruarfsins, 
t.d. með því að miðla og skiptast á sérfræðiþekkingu og hagnýtum aðferðum. 
Ekkert íslenskt svæði eða þjóðgarður á aðild að Europarc Federation. 

Vanoise þjóðgarðurinn er einnig aðili að ALPARC, samtökum verndarsvæða í Ölpunum (Réseau Alpin des Espaces Protégés). 
Auk þess á þjóðgarðurinn aðild að sambandi verndarsvæða í Rhône-Alpes héraðinu í Frakklandi, en í því eru tveir þjóðgarðar, sex svæðisgarðar og Mont Blanc svæðið. 

Þjóðgarðurinn hefur svo frá 1976 átt aðild að European network of protected areas (Réseau européen des espaces protégés) sem starfar á vegum Evrópuráðsins (Ath. að Evrópuráðið tengist ekki Evrópusambandinu, heldur er það alþjóðasamtök 47 ríkja Evrópu). Ráðherranefnd Evrópuráðsins hefur síðan 1965 veitt vernduðum svæðum viðurkenninguna European Diploma of Protected Areas fyrir framúrskarandi gæði eða starf á sviði vísinda, menningar eða fagurfræði. Svæðin verða jafnframt að hafa viðurkennda verndaráætlun sem byggir á sjálfbærri þróun. Nú hafa 70 svæði í 26 Evrópulöndum fengið viðurkenninguna og er Vanoise eitt þeirra, eins og áður sagði.