Inngangur

Á þessum vef er að finna ýmsan fróðleik um þjóðgarða, meðal annars erlend dæmi þar sem vel hefur tekist til
við að nýta sérstöðu svæðis og þjóðgarðar hafa haft jákvæð samfélagsleg áhrif.
Hér er einnig að finna upplýsingar um það hvaða verðmæti felast í sérstöðu svæða, af hverju ætti að nýta hana
og með hvaða hætti megi greina hana. Auk þess er hér birtur afrakstur úr vinnu þar sem leitast var við að
greina sérstöðu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og nærliggjandi svæðis og þau tækifæri sem í því kunna að felast.


Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull – tækifæri í heimabyggð á Snæfellsnesi
Efnið sem hér er sett fram er afrakstur fyrsta áfanga verkefnis sem Snæfellsbær, SSV - Þróun og ráðgjöf, Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull og Átthagastofa Snæfellsbæjar hafa unnið að með styrk frá Vaxtarsamningi Vesturlands.
Sá áfangi var hugsaður sem grunnvinna í umfangsmeira verkefni sem felst í að efla þekkingu, skilning og samstarf,
og nýta enn frekar tækifærin sem þjóðgarður á svæðinu býður.
Við þessa vinnu nutu aðilar aðstoðar ráðgjafarfyrirtækisins Alta, sem hafði umsjón með samráðsfundi sem haldinn var í Félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík þann 30. mars 2011, og með öflun og framsetningu þess efnis sem hér birtist. 
Nánar er gerð grein fyrir afrakstri vinnusmiðjunnar í Klifi hér á vefnum. Efnið sem hér birtist um þjóðgarða, erlend dæmi og sérkenni og staðaranda, er unnið af Alta í framhaldi af kynningum þar um á fundinum. 

Tilgangurinn með þessari vinnu er að:
  • afla og miðla upplýsingum um starfsemi, atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun í og við verndarsvæði og þjóðgarða annarsstaðar í heiminum, sem hafa má til hliðsjónar við stefnumótun og þróunarvinnu á Snæfellsnesi 
  • skilgreina sérstöðu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem nýst getur fyrir atvinnuuppbyggingu og eflingu byggðar á Snæfellsnesi 
  • kortleggja þau tækifæri sem Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull skapar til nýsköpunar, vöruþróunar og atvinnuuppbyggingar á Snæfellsnesi
Vonast er til að efniviðurinn sem hér safnast nýtist til að:
  • vekja athygli heimamanna á þeim tækifærum sem felast í þjóðgarðinum
  • styrkja tengsl og samstarf þjóðgarðs og heimamanna
  • auka þekkingu allra áhugasamra 
  • kveikja hugmyndir sem þróa má áfram og geta átt þátt í að efla þjónustu og ýmsa atvinnustarfsemi í tengslum við
    Þjóðgarðinn Snæfellsjökul

Með aukinni þekkingu, gagnkvæmum skilningi og samstarfi allra aðila
má vinna enn frekara uppbyggingarstarf á Snæfellsnesi!