Sérkenni og staðarandi

Sérkenni svæða
Þjóðgarðar gegna meðal annars því hlutverki að standa vörð um sérkenni svæðis um leið og almenningi er gert kleift að njóta þess sem svæðið býður upp á. Í ferðaþjónustu er gjarnan reynt að markaðssetja sérkenni svæða og þá upplifun sem þau bjóða, hvort sem svæði eru verndarsvæði eða ekki. Þá er unnið með svokallaðan staðaranda (sense of place). Þjóðgarðar eru því eitt dæmi af mörgum um staði sem hafa sérstöðu eða sérkenni sem hægt er að nýta til eflingar ferðaþjónustu og jafnvel annarra atvinnugreina. En hvað er átt við með orðinu staðarandi?

Hvað er staðarandi?
Til þess að lýsa upplifun sinni af tilteknum stað talar fólk gjarnan um að andinn hafi verið þess eða hinn. Andinn vísar þá til þeirra tilfinninga sem fólk upplifði eða áhrifa sem það varð fyrir á staðnum. Þau áhrif geta stafað frá umhverfinu jafnt sem mannfólkinu. Þau verða til jafnt út frá hljóð, lykt og bragði sem sýn, snertingu og samskiptum. Þannig upplifum við staði í gegnum öll skynfæri okkar. Því sterkari sem upplifunin er því skýrari verður mynd staðarins í huga okkar og þar með ímynd hans. Því jákvæðari sem upplifunin er því líklegra er að við viljum heimsækja staðinn aftur. 

En staðarandi er ekki einungis til í hugum gesta, hann er ekki síður lýsing á þeim tengslum sem heimamenn hafa við átthaga sína. Því sterkari tengsl, þeim mun skýrari sjálfsmynd íbúa og samfélagsins. Það eru þessi tengsl sem gestir vilja gjarnan kynnast og fá að upplifa. Ferðalangar leita eftir því sem er ekta" og sérkennandi fyrir viðkomandi stað.

Skilgreining staðaranda
Í staðarandanum felast því verðmæti og til að nýta þau er mikilvægt að geta lýst honum og miðlað með fjölbreyttum en, að einhverju leyti, samræmdum hætti.  

Nýting tækifæra sem felast í staðarandanum
Tækfærin sem liggja í staðaranda svæða eru yfirleitt ekki bara á sviði ferðaþjónustu heldur má einnig nýta verðmætin í staðarandanum á öðrum sviðum, eins og í vöruþróun og markaðssetningu á t.d. handverki eða matvælum.